Miðvikudagur, 10. janúar 2018
Konungssmiður knésettur
Bannon var sagður höfundur að kosningasigri Donald Trump haustið 2016. Bannon þótti hugmyndafræðingurinn að baki Trump og honum var eignaður mestur heiðurinn að pólitíska bandalaginu sem fleytti Trump inn í Hvíta húsið.
Eftir fáeina mánuði í innsta valdakjarna forsetans varð Bannon að víkja og hélt á gamlar slóðir, til Breitbart-fjölmiðlaveitunnar, þar sem hann fyrrum gat sér orð.
Konungssmiðurinn Bannon tók því ekki þegjandi að vera settur út í kuldann og gerðist lausmáll við blaðamenn sem ekki voru forsetanum vinsamlegir en af þeim er nóg að taka.
Bókin Eldur og æði, um fyrstu misseri forsetaferils Trump, geymir nokkur gullkorn frá Bannon er gerðu bókina trúverðugri en ella.
Konungssmiðir sem komast í ónáð eiga um tvennt að velja. Að bera harm sinn í hljóði og njóta fyrri afreka eða hitt að leggja lag sitt við tilræðismenn konungdómsins. Fyrri leiðin er ávísun á virðulega friðsæld en sú seinni gefur von um uppreisn æru - en aðeins ef tilræðið heppnast.
Bannon er nokkur vorkunn. Hann mátaði gáfnafar sitt við Trump og taldi sig meira en jafnoka. En þótt gáfur nýtist til að komast til valda þarf aðra og frumstæðari eðlisþætti til að halda þeim. Þar standa gáfumennin höllum fæti. Konungssmiðurinn er kominn á vonarvöl.
Bannon hættir hjá Breitbart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.