Miðvikudagur, 10. janúar 2018
Dómarar án dómgreindar
Deilan um hverjir skipi dómaraembætti í landsrétti og héraðsdómi eykur ekki tiltrú almennings á dómskerfinu. Augljóst er, af orðum formanns dómnefndar um hæfni umsækjenda héraðsdómara, að deilan snýst ekki um aðalatriði.
Hvort settur dómsmálaráðherra skrifaði tiltekið bréf eða ekki er fullkomið aukaatriði. Ráðherrar skrifa nær aldrei embættisbréf sín sjálfir, það gerir starfslið ráðuneyta. Formaður dómnefndar veit þetta mætavel en kýs samt sem áður að gera þetta lítilfjörlega atriði að uppistöðu í svari sínu við gagnrýni ráðherra.
Jón Steinar Gunnlaugsson birtir matskvarða á hæfni þeirra 33 sem sóttu um embætti í landsrétti. Allir umsækjendur fá 10 stig af 10 mögulegum á þrem mælikvörðum af 12. Almennt eru mælikvarðar notaðir til að sundurgreina en ekki til að finna samnefnara. Það er beinlínis tilgangurinn. Þegar þrír kvarðar af 12 gefa öllum umsækjendum fullt hús stiga er augljóst að hæfnismatið er gallað.
Lögfræði er ekki nákvæm vísindagrein. En valdaelítan sem stendur í þjarki við yfirvöld dómsmála vill telja okkur trú um að umsækjandi með 5,525 stig búi yfir meiri hæfni til að verða dómari en umsækjandi með 5,275 stig.
Tiltrú almennings á dómskerfinu er nauðsynleg. Umboðslausa valdaelítan sem telur sig hafna yfir lögmæt yfirvöld dómsmála ætti nota dómgreindina og láta af þeirri iðju að grafa eigin gröf.
Viss um að Guðlaugur ritaði ekki bréfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi grein Jóns Steinars er nánast hrollvekjandi, þegar tekið er tillit til þess að þeir sem um er fjallað, þ.e. dómnefndin, er ófær að fjalla um grunnatriði mannaráðningar. Að kanna feril manna í starfi, hvernig þeir sinna starfi sínu og hvort þeir hafi sýnt af sér einhverja sérstöðu í úrlausn verkefna. Þeir kjósa hins vegar að setja upp Excel-töflu með einfaldri samlagningu tima í starfi. Það þarf ekki dómnefnd skipaða af hæstarétti til þessa, Hvert barn í grunnskóla getur framkvæmd slíka samlagningu.
Ragnhildur Kolka, 10.1.2018 kl. 09:46
Samanlagt vægi matsþáttanna er 105%. Það virðist semsagt vera gert ráð fyrir ofurmannlegum eiginleikum. :)
Guðmundur Ásgeirsson, 10.1.2018 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.