Laugardagur, 6. janúar 2018
Churchill: bjargvættur eða rasisti?
Winston Churchill bjargaði bresku þjóðinni og líklega evrópsku lýðræði örlagadaga vorið 1940. Herir Hitlers réðu allri Mið- og Vestur-Evrópu, allt frá Noregi til Miðjarðarhafsstrandar Frakklands. Spán og Ítalíu sátu fasistarnir Franco og Mussolini. Póllandi var skipt milli Þýskalands og Sovétríkjanna.
Nær allt meginland Evrópu var sem sagt ýmist undir fasisma eða kommúnisma vorið 1940. Eftir ófarir breska hersins í Frakklandi og flótta frá Dunkirk mæltu öll rök með því að Bretar gerðu friðarsamninga við Hitler og gæfu honum þar með frjálsar hendur í austri, til að vinna Þjóðverjum lebensraum, lífsrými.
Winston Churchill var hornkerling breskra stjórnmála vorið 1940, þótti aflóga drykkfellt gamalmenni og stríðsæsingamaður. Stórkostlegt dómgreindarleysi þáverandi forsætisráðherra, Neville Chamberlain, sem gerði friðarsamninga við Hitler og Mussolini síðsumars 1939, gaf Churchill tækifæri til að verða forsætisráðherra. En það stóð tæpt.
Churchill reis undir ábyrgðinni, neitaði að gefast upp fyrir fasisma, byggði brú til Bandríkjanna í gegnum Ísland og bjargaði bæði Bretum og Evrópu frá Hitler og nasisma. Í stríðslok var Churchill ásamt Roosevelt Bandaríkjaforseta og Stalín í Sovétríkjunum þríeykið sem var með öll ráð heimsins í hendi sér.
En Churchill var líka rasisti. Honum er með réttu borið á brýn að fyrirlíta aðra kynþætti en þann hvíta. Hann er jafnvel sagður bera ábyrgð á hugurdauða 2 til 3 milljóna Indverja.
Ian Jack dálkahöfundur vinstriútgáfunnar Guardian ræðir arfleifð breska heimsveldisins og kemur inn á þátt Churchill. Bæði Bretar og ekki síður fyrrum nýlenduþegnar þeirra eiga erfitt með að gera upp hug sinn gagnvart nýlendusögunni. Andstæðir pólar eru að nýlenduveldi Breta hafi verið menningarauki annars vegar og hins vegar rányrkja með skipulögðum manndrápum sem ívafi.
Bandaríkin, sem voru nýlenda Breta til 1776, eru ekki hluti af deilunni um arfleifð heimsveldisins. Það gefur til kynna að deilan snýst ekki um söguna heldur pólitískan samtíma. Eins og raunar öll saga gerir, aðeins í mismiklum mæli.
Var Churchill bjargvættur vestræns lýðræðis eða rasisti? Hann var hvorttveggja. Var hann góður maður eða vondur? Bæði og, eins og fólk er flest. Var hann stórmenni? Já, tvímælalaust.
Athugasemdir
Ég er að hlusta á bók Anthony McCarten -Darkest Hour- sem fjallar um fyrstu dagana í forsætisraðherra tíð Churchills. Hvernig hann snéri nánast tapaðir stöðu í sigur. Stuttur en hnitmiðaður útdráttur um æsku og brokkgengan feril hans fram að embættistökunni gefur innsýn í þennan flókna persónuleika. Churchill var margslunginn karakter, bæði lítill og stór, ljónklár en líka afskaplega gloppóttur. Hann var eins og risastórt barn, upptekinn af sjálfum sér en á sama tíma opin fyrir heiminum. Í dag væri hann líklega á stórum skömmtum af lithium og gagnslaus öllum. En ef ekki væri fyrir hann og orðsnilld hans væri ekki aðeins England annað heldur heimur okkar allra.
Ragnhildur Kolka, 6.1.2018 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.