Föstudagur, 29. desember 2017
Einkauppgjör við látinn föður - hver er tilgangurinn?
Anna Ragna Magnúsardóttir gerir upp sakirnar við föður sinn, Magnús Thorlacius, sem lést fyrir 40 árum. Fyrsta setningin í uppgjörinu, eins og það birtist alþjóð, er ,,Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður og frímúrari."
Efni af þessu tagi er eftirsótt lesefni, það skýrir vilja fjölmiðla að birta það. Á Önnu Rögnu er að skilja að uppgjörið sé til að brjóta upp þrúgandi þögn fjölskyldunnar.
Blaðamaðurinn, sem vinnur efnið frá Önnu Rögnu, virðist telja það dæmi um hvernig ,,fínir menn" komist upp með að níðast á börnum. Blaðamaðurinn skrifar:
Í sumar, þegar mál Roberts Downey stóð sem hæst, kom það til tals, meðal annars af Illuga Jökulssyni, hví svo fáir fínir menn hafi í gegnum tíðina á Íslandi þurft að svara fyrir níðingsskap gegn börnum.
Magnús Thorlacius er gerður að dæmi um áhrifamann sem í skjóli virðingarstöðu í samfélaginu kemst upp með glæpi. En hann naut einskins skjóls nema heimilisins, sem allir njóta hvort heldur þeir eru efst eða neðst í mannvirðingarstiganum. Málavextir bera með sér að Magnús var aldrei kærður og að meint brot hans hafi verið framin innan veggja heimilisins.
Menn verða ekki níðingar eða annars konar glæpamenn vegna þjóðfélagsstöðu sinnar. Hneigð manna til óhæfuverka ræðst af persónulegum þáttum, ekki hvort þeir eru efnaðir eða fátækir.
Í minningargrein um Magnús segir:
Magnús varð í æsku fyrir miklum heilsufarslegum áföllum, sem mörgum hefði dugað til aldurtila, en Magnús sigraði. Þetta varð hins vegar þess valdandi, að hann náði ekki þeirri líkamlegu reisn, sem hann var borinn til.
Ef tilgangurinn með því að bera einkauppgjör Önnu Rögnu við föður sinn á götur og torg væri að upplýsa, fræða eða varpa ljósi á eðlisþætti í fari manna sem brjóta á þeim sem síst skyldi væri nærtækt að skyggnast um líf gerandans, sem verður að teljast meintur í þessu tilviki þar sem aðeins fórnarlambið er til frásagnar.
Athugasemdir
Það er því miður í tízku, að níðast á þeim látnu.
Einhver ætti að hvísla í eyra þessarar kerlingarteturs ...
"De Mortuis, aut bene aut nihil"
Örn Einar Hansen, 29.12.2017 kl. 21:34
Ég held nú varla að fólk sé að skrökva svona alvarlegum hlutum uppá sína eigin foreldra. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Anna Ragna segi ósatt. Af hverju í ósköpunum ætti hún að gera það?
Ef við göngum út frá því að frásögnin sé sönn þá er ekki verið að níðast á föðurnum.
Það er heldur ekki þannig að eftir andlát geranda sé fórnarlamb bundið einhverskonar siðferðislegri þagnarskyldu.
Skeggi Skaftason, 30.12.2017 kl. 00:18
Án þess að þekkja umrætt mál hið minnsta, þá tel ég það undarlegt og reyndar óskiljanlegt að bíða þögul og þolinmóð með ákærur uns sakborningur er látinn og getur ekki lengur borið hönd fyrir höfuð sér.
Hver er tilgangurinn? Er hann einungis til að uppskera umtal, eða samúð, eða er tilgangurinn að særa eða meiða aðra fjölskyldumeðlimi?
Algengt er það fyrirbæri líka, þar sem einstaklingur gerir sér hreinlega í hugarlund verknað sem viðkomandi framkvæmir eða verður fyrir, en skiljanlega eru þeir sömu einstaklingar vissulega ekki sakhæfir.
Ábyrgð blaðamanns eða fréttamiðils hlýtur að vera nokkur þegar bornar eru fram opinberlega refsiverðar ákærur og að því virðist - án sannana.
Jónatan Karlsson, 30.12.2017 kl. 06:31
Vetrarmyrkrið rótar til í huga margra.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.12.2017 kl. 11:24
Jónatan,
Magnús lést þegar dóttir hans var 12 ára gömul.
Skeggi Skaftason, 30.12.2017 kl. 16:24
Skeggi.
Sé gengið út frá að þessar minningar eigi við rök að styðjast, hver er í ósköpunum getur þá verið tilgangur eða ávinningur þessara skelfilegu ásakana?
Jónatan Karlsson, 31.12.2017 kl. 09:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.