Mánudagur, 25. desember 2017
Læsi, hlýðni og sjálfræði
Frá Forn-Grikkjum kemur hugmyndin um að samhengi sé á milli sjálfráða einstaklinga og sjálfráðs samfélags. Ríkiskenning Platóns byggir á samsvörin milli réttláts einstaklings og fyrirmyndarríkisins þar sem dygðirnar þrjár viska, hugrekki og hófstilling eru hornsteinar.
Þekkingu, eða visku, afla menn sér með læsi. Björn Bjarnason ræðir hlut lútersku kirkjunnar í að kenna Íslendingum að lesa á 18. öld. Samhliða lestrarkennslu lagði kirkjan ríka áherslu á hlýðni.
Þekking er vald, sem bæði má nota til góðs og ills. Hlýðni er aftur taumhald. Með áherslu á að hlýðni fylgdi aukinni þekkingu, sem er afleiðing af almennu læsi, vildi kirkjan leggja taumhald á hvernig farið væri með þekkingarvaldið.
Við þekkjum hlýðni í mörgum útgáfum. Hún getur verið hundsleg undirgefni en einnig virðingarverð afstaða þar sem viðurkenndu yfirvaldi er fylgt. Lærifaðir Platóns, Sókrates, taldi aþensku lögin öllu æðri og fylgdi þeim til hinstu stundar, jafnvel þegar almenningur dæmdi hann saklausan til dauða. Á miðöldum og fram á nýöld var guð æðsta yfirvaldið sem allir skyldu hlýða. Um það voru bæði kaþólska kirkjan og sú lúterska sammála.
Í kjarna virðingarverðrar hlýðni er sjálfsaginn. Sá sem ekki býr að lágmarkssjálfsaga er ekki sjálfráður. Hvatalífið leikur þar lausum hala með dyntum sínum og taumleysi. Sama gildir um samfélag manna. Ef samfélagið sýnir ekki virðingu meginreglum, trúarlegum eða veraldlegum, leiðir það til upplausnar.
Frá upplýsingunni og með iðnbyltingunni, eða í kringum 250 ár, er veldisvöxtur þekkingar. Hlýðni og sjálfsagi vex ekki ekki í sama hlutfalli, hvorki hjá einstaklingum né þjóðum. Þess vegna erum við í nokkrum vanda með sjálfræðið, bæði einstaklinga og þjóða.
Athugasemdir
"Í kjarna virðingarverðrar hlýðni er sjálfsaginn. Sá sem ekki býr að lágmarkssjálfsaga er ekki sjálfráður. Hvatalífið leikur þar lausum hala með dyntum sínum og taumleysi. Sama gildir um samfélag manna. Ef samfélagið sýnir ekki virðingu meginreglum, trúarlegum eða veraldlegum, leiðir það til upplausnar".
Það er margt til í þessu hjá þér Páll.
Styður þú "gaypride-stefnu" sitjandi ríkisstjórnar?
Jón Þórhallsson, 25.12.2017 kl. 14:30
Vel skrifað og skynsamlega.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.12.2017 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.