1. des. uppgjörið: 1944-Ísland sigrar 2007-Ísland

Níu ára stjórnarkreppu eftirhrunsins lauk með innreið ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í stjórnarráðið. Í stjórnarkreppunni var barist tvær útgáfur af Íslandi. Fyrri útgáfuna má kenna við lýðveldið, 1944-Ísland, sem felur í sér hægfara þróun borgaralegs samfélags, byggt á fullveldi og jöfnuði.

Seinni útgáfan, Útrásar-Ísland, fær auðkennið 2007, algleymisár útrásarinnar. Árin fyrir 2007 stóðu Íslendingar í banka- og viðskiptaútrás, sem féll með hruninu. Í beinu framhaldi var reynd pólitísk útrás, með umsókn um ESB-aðild. Ævintýramennska einkennir þessa útgáfu og henni fylgja öfgar. Ísland er ýmist best í heimi eða ónýtt.

Samfylkingin er aðalflokkur 2007-Íslands. Flokkurinn var klappstýra útrásarauðmanna fyrir 2007 og keyrði áfram umsókn Íslands um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna - og faldi kostnaðinn. Eftir hrun verður Samfylkingin eini flokkur landsins sem stefnir Íslandi í Evrópusambandið. ESB-umsóknin frá 16. júlí 2009 er getin, fædd og alin í Samfylkingunni.

Aðalflokkur 1944-Íslands er Vinstri grænir. Þar á bæ lifði glóð lýðveldiskynslóðarinnar. Frá Vinstri grænum, og forverum þess flokks, Alþýðubandalaginu, komu menn eins og Ragnar Arnalds, stofnandi Heimssýnar, og Ólafur Ragnar, sem kippti fótunum undan ESB-umsókninni með því að vísa Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki einu sinni heldur tvisvar.

Fyrir gráglettni örlaganna sátu andstæðir pólar íslenskra stjórnmála, Samfylking og Vinstri grænir, saman í fyrstu ríkisstjórninni eftir hrun. Reynt var að blanda saman olíu og vatni með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Stöðugur ófriður var innan ríkisstjórnar; landsbyggðin í stríði við 101-Reykjavík; stjórnarskráin í uppnámi og Ísland við það að verða hjáleiga Breta og Hollendinga. Ef ekki beint, vegna Icesave-laganna, þá óbeint með inngöngu í Evrópusambandið.

Þótt stöðugur hagvöxtur væri nær alla stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna, Jóhönnustjórnarinnar 2009-2013, dugði það ekki til. Þjóðin fékk viðbjóð. Samfylkingin setti heimsmet í fylgistapi stjórnarflokks í lýðræðisríki, fór úr 30 prósentum 2009 niður í 12,9 prósent 2013 og fylgi Vinstri grænna helmingaðist.

1944-Íslandi var hleypt af stokkunum með nýsköpunarstjórninni á sjálfu lýðveldisárinu. Í henni sátu Sjálfstæðisflokkur, höfuðból borgaralegra stjórnmála, Alþýðuflokkur (Samfylking) og Sósíalistaflokkur (Vinstri grænir). Stjórnin dó ótímabærum dauðdaga þrem árum seinna vegna fullveldismála - afstöðunnar til hersins á Miðnesheiði.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er endurnýjun 1944-Íslands. Stjórnin er skipuð sömu flokkum og nýsköpunarstjórnin með einni mikilvægri undantekningu. Í stað Samfylkingar/Alþýðuflokks er kominn Framsóknarflokkurinn. Elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins með sterkar rætur í bændasamfélaginu sem fóstraði þjóðina og fæddi í þúsund ár.

1. desember 2017 markar skil í stjórnmálasögunni. Lýðveldið er komið til þroska, útrásargelgjan verður senn bernskuminning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki heldur snemmt að blása í lúðra Páll? Kjarasamningar eru eftir, svo vomir enn inni þessi stjórnarskrárkafbátur, sem smíðaður var með það markmið eitt að greiða götuna inn í ESB. Aðeins þrjú prósent vinstri grænna studdu þessa stjórnarmyndun samkvæmt skoðanakönnunum og tveir þingmenn þar innan sem eru væntanlega fulltrúar þeirrar gremju. Þá hangir þessi stjórn á einum manni og duttlungum hans. Villikettirnir eru margir.

Svo veit maður aldrei um vinstri gremjuna inngrónu og skandalamakeríið. Kannski finna þeir út að fjarskyldur ættingi Bjarna hafi keyrt yfir á rauðu 68 og sprengja allt í loft upp á næturfundi.

Kannski verður þetta bara í lagi, en miðað við það frumskógarlögmál sem hefur ríkt í íslenskum stjornmálum s.l. tíu ár, þá vona ég að þú fyrirgefir mér skeptíkina.

Menn leita nú logandi ljósi að núningspunktum. Logi mætir með hangikjöt og grænar í útsendingu til að skýra þá stórfenglegu hagfræðilegu uppgötvun sina að skattalækkanir skaði litla manninn því þeir sem hafi milljón fái meiri lækkun í kronum talið en þeir sem hafa hundrað þúsund. Þetta hlýtur að fara fyrir Nóbelsnefndina.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.12.2017 kl. 11:25

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Rétt hjá þér, Jón Steinar. Kurlin eru ekki öll komin til grafar. Ég gæti þurft að endurskoða niðurstöðuna.

Páll Vilhjálmsson, 2.12.2017 kl. 12:57

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þetta líkar mér. Heiðríkjan sýndist mér fullmikil í pistli Pals, en Jón Steinar bætti jarðtenginuna. Held að flestir geti nú vel við unað.

Ragnhildur Kolka, 2.12.2017 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband