Sunnudagur, 30. júlí 2017
Valdelti fjölmiðla - Trump eignast vini
Fjölmiðlar eru hver með sitt sjónarhorn, eins og Björn Bjarnason bendir á. Sjónarhornið markast af eignarhaldi, sögu og menningu fjölmiðils. En fjölmiðlar vilja einnig fylgja meginstraumum í samfélaginu sem þeir starfa í og verða þá á tíðum gagnrýmislausir, líkt og Sigmundur Davíð rekur.
Valdelti fjölmiðla er ekki eingöngu hjarðhegðun þar sem haldið er í humátt á eftir forystusauðnum. Fjölmiðlar þrífast á athygli. Fjölmiðill sem enginn nennir að fylgjast með deyr drottni sínum. Í síkviku almenningsáliti reyna fjölmiðlar að veðja á réttan hest. Valdelti er birtingarmynd þess, eins og mátti sjá þegar RÚV var eins og hundur í bandi Pírata á meðan sá flokkur naut lýðhylli.
Donald Trump Bandaríkjaforseti naut ekki stuðnings fjölmiðla, nema örfárra (Fox, Breitbart). Hann varð forseti þvert á spár og þótti, þykir enn af mörgum, senuþjófur.
En Trump er orðinn forseti og embættinu fylgir vald. Fjölmiðlar eru sumir hverjir farnir að veðja á Trump, tileinka sér sjónarhorn valdsins. Guardian, sem ekki er í vinahópi Trump, segir, með nokkurri fýlu, að fjölmiðillinn Circa sé orðinn að uppáhaldi í Hvíta húsinu.
Circa nýtur vinsælda meðal ungra fjölmiðlaneytenda. Miðillinn stökk á Rússafréttina en fylgir línu Trump við val á sjónarhorni. Sem sagt valdelti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.