Föstudagur, 28. júlí 2017
Stríðið sem enginn vildi - 25 árum síðar
Í Sarajevo fyrir 25 árum voru friðartónleikar sem tugþúsundir Júgóslava sóttu. Tónleikarnir voru haldnir til að stemma stigu við ófriðarhorfum í sambandslýðveldinu sem var stofnað eftir seinna stríð til að sameina suður-slavneskar þjóðir.
Undir agavaldi Josip Broz Tito var Júgóslavía heimaland Serba, Slóvena, Króata, Bosníumanna, Albana og fleiri þjóða. Júgóslavía tilheyrði Austur-Evrópu í kalda stríðinu en var frjálsara en mörg önnur kommúnistaríki, s.s. Austur-Þýskaland, Rúmenía, Ungverjaland að ekki sé talað um sjálf Sovétríkin.
Kalda stríðinu lauk 1991 með upplausn Sovétríkjanna og endalokum Varsjárbandalagsins. Í Júgóslavíu ókyrrðust þjóðir sambandsríkisins. Þó var eitt ráðandi tungumál, serbó-króatíska, og blandaðar fjölskyldur algengar. Í nafni ríkissamheldni hafði þjóðarblöndun verið skipulagt af Tito og stjórnvöldum í Belgrad, t.d. með fólksflutningum á milli landssvæða eftir seinna stríð.
Gegn vaxandi þjóðernishyggju og stríðsæsingu voru stórtónleikarnir í Sarajevo skipulagðir. Sambærilegri tónleikar voru haldnir víða um landið. En fáeinum mánuðum síðar var skollið á stríð, það fyrsta í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Nánast á einni nóttu urðu vinir að óvinum og fjölskyldur splundruðust. Áður en yfir lauk dóu 100 þúsund manns í stríðsátökum og fjöldamorðum. Þúsundir flúðu land. Júgóslavía fór á öskuhauga sögunnar en þjóðríkin Serbía, Króatía, Slóvenía og fleiri urðu til.
Hvers vegna verður stríð sem enginn vill? er spurt í tilefni ef aldarfjórðungsafmæli friðartónleikana í Sarajevo. Stutta svarið er: vegna þess að nógu margir sáu stríð sem pólitíska lausn. Lengra svarið er að sambandsríki margra þjóða þarf aðhald frá sterkum leiðtogum og sögulegum kringumstæðum (Tito, kalda stríðið) til að þrífast þegar sameiginlegan sögulegan, trúarlegan og hugmyndafræðilegan grunn skortir.
Stríðsátök eru ekki sjálfsögð þegar ríki sameinast eða sundrast. Austur-Þýskaland rann inn í sambandslýðveldið Þýskaland án blóðsúthellinga. Tékkóslóvakía varð að tveim ríkjum án vopnaskaks. Jafnvel Sovétríkin liðuðust tiltölulega friðsamlega í sundur í 15 lýðveldi. En, því miður, eru dæmin fleiri um að pólitíkin vopnavæðist þegar þjóðir finna sér nýtt skipulag - líkt og í Júgóslavíu fyrir 25 árum.
Enginn getur svarað því hvort Júgóslavíustríðið hafi verið söguleg nauðsyn. En hitt er öllum augljóst: það er engin pólitísk hreyfing á Balkanskaga sem boðar endurreisn Júgóslavíu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.