Trump og Pútín: óvinaímyndir og sterkir menn

Óvinaímynd auðveldar skilning, ekki síst í alþjóðastjórnmálum. Í kalda stríðinu voru Sovétríkin skýr óvinaímynd vestrænna þjóða. Sovétríkin stóðu fyrir alræði kommúnisma gegn vestrænu lýðræði (sem, raunar, stóð ekki alltaf undir nafni).

Fall Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi skóp skilyrði sögulegra sátta þar sem arftaka Sovétríkjanna, Rússlandi, yrði hleypt inn í samfélag vestrænna þjóða. Svo fór ekki. Eftir áratug upplausnar í Rússlandi tók völd þar maður að nafni Pútín - og hefur haldið þeim síðan.

Pútín hefur stjórnað Rússlandi í tíð fjögurra Bandaríkjaforseta: Clinton, Bush yngri, Obama og nú Trump. Af þessum fjórum er Trump líkastur Pútín; afgerandi og umdeildur.

Vonir stóðu til að Trump og Pútín myndu loks grafa stríðsöxina, sem úreltist við fall Sovétríkjanna. Tvímenningarnir skiptust á skjalli á meðan Trump stóð í kosningabaráttu sinni á síðasta ári.

En óvinaímyndin, sem gerði Bandaríkin og Rússland að andstæðingum þótt efnislegar forsendur væru ekki lengur fyrir hendi, tók á sig nýja mynd við sigur Trump. Hann var sagður strengjabrúða Pútín og á í vök að verjast á heimavelli vegna ásakana um að hafa orðið forseti með stuðningi Rússa.

Sumir Bandaríkjamenn, til dæmis Paul Saunders og Stephen F. Cohen, telja að nýju óvinaímyndinni, sem haldið er á lofti, um að Trump sé handbendi Pútín, stórauki hættuna af stríði fyrir slysni á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Sterkir menn eru oft hégómlegir. Þeir þurfa reglulega að staðfesta að þeir standi undir nafni. Þeir taka stórar og afgerandi ákvarðanir í því skyni. Fyrirsjáanlegt handaband Trump og Pútín í Hamborg er ekki stór og afgerandi ákvörðun. En það er þó huggulegra að óvinaímyndir hittist augliti til auglitis og takist í hendur. 


mbl.is Trump og Pútín hittast í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju ætti Pútin að vilja fá "sterkan" Bandaríkjaforseta, sem gæti fært Bandaríkin aftur upp á skaftið?

Þetta er augljós "rangfærsla" ... hitt er mjög líklegt, og það er að Rússar hafi frekar reint að aðstoða Hillary ... veikur forseti í Bandaríkjunum, styrkir Rússa ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 30.6.2017 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband