Sunnudagur, 11. júní 2017
Ameríkuvædd úr moldarkofa
Íslendingar voru ameríkuvæddir úr moldarkofum áratugina eftir seinna stríð. Nei, þetta er ekki ný uppgötvun, heldur hluti af sjálfsmynd Íslendinga í kringum 1970.
Norskir sjónvarpsmenn voru hér á ferð sumarið 1969 og gerðu 40 mínútna heimildarþátt um Ísland nútímans. Ivar Eskeland, sem veitti Norræna húsinu forstöðu fyrstu fjögur starfsár þess 1968-1972, víkur að þeirri hneigð Íslendinga að fyrirlíta sjálfa sig. Hann segir þá suma vonsvikna þegar hann svarar neitandi spurningu þeirra um hvort landinn sé ekki úr hófi ameríkuvæddur.
Goðsögnin um ameríkuvæðingu Íslendinga nærðist einkum á hraðri þéttbýlisþróun annars vegar og hins vegar fimm þúsund manna herliði Bandaríkjanna á Miðnesheiði.
Heimildarmyndin norska kippir stoðunum undan goðsögninni. Allir viðmælendur fréttamanns NRK tala norrænu. Hver með sínu nefi, eins og gefur að skilja. Sveinn Einarsson leikhússtjóri LR talar mjúkmælta sænsku og Hannibal Valdimarsson í hlutverki forseta ASÍ fer fram með vestfirska dönsku.
Það má velt fyrir sér hve margir af forsvarsmönnum menningar, atvinnulífs og stjórnmála ræddu í dag landsins gagn og nauðsynjar á skiljanlegri norrænu. Trúlega myndi þorri þeirra tala á ensku. En við myndum ekki kalla það ameríkuvæðingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.