Laugardagur, 20. maí 2017
Ingólfur var Garðbæingur
Haft er fyrir satt að Ingólfur Arnarson sé fyrsti landnámsmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Einu heimildir um að Ingólfur hafi reist sér bú í Reykjavík, Landnámubók og Íslendingabók, eru skrifaðar rúmum 200 árum eftir atburðinn. Ef gefið er að fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur eða einhver annar, settist að á höfuðborgarsvæðinu benda aðrar heimildir, staðhættir og fornleifar, til þess að heimili hans og aðalaðsetur hafi ekki verið Reykjavík. En hvar þá?
Reykjavík var hrjóstrug jörð lítt fallin til ábúðar fyrir norræna bændur sem námu hér land á víkingatíma. Gamla Reykjavíkurjörðin náði frá kvosinni upp í Öskjuhlið til Rauðarár neðan Klambratúns og niður á Kirkjusand. Svona um það bil. Samkvæmt Landnámabók var jörð Ingólfs nokkru stærri. Land hans náði í austur til Úlfarsár/Korpu og til vesturs að Hraunholtslæk sem liggur út í Arnarnesvog, þar sem Sjálandsskóli stendur nú. Vestan lækjar bjó bróðursonur Ingólfs, Ásbjörn Össurarson, á Skúlatúni sem líklega var bær á Álftanesi.
Heimili landnámsmanns varð að uppfylla tvö frumskilyrði. Í fyrsta lagi að vera góð bújörð og í öðru lagi veita útsýni til allra átta. Reykjavík uppfyllir hvorugt skilyrðið.
Fyrra skilyrðið þarf ekki að rökræða, bóndi velur sér gott jarðnæði. Lífsbjörgin, búpeningurinn, er undir sama þaki og heimilisfólkið, og heimilið vitanlega sem næst ökrum, engjum og vatnsbólum til að auðvelda aðdrætti. Grasnyt Reykjavíkurjarðarinnar var takmörkuð með klöppum, holtum og melum.
Seinna skilyrðið, útsýnið, er ekki eins augljóst en liggur í augum uppi þegar að er gáð. Bændur stunduðu kvikfjárrækt og beittu á úthaga. Sauðfé, nautgripir og hross þurfa landrými og tilsjón með peningnum verður skilvirkari ef bærinn stendur hátt. Ábúandi í kvosinni sér út í eyjar og Esju en annars byrgja sýn Skólavörðuholt og Öskjuhlið. Í vestri stendur Örfirisey í sjónlínunni. Til að sjá strandlengjuna út á Nes og Snæfellsjökul þarf að yfirgefa kvosina og ganga út á Ufsaklett. Með öðrum orðum: kvosarbóndi sér frá túnfætinum hvorki búpening sinn né til mannaferða.
Annað atriði sem án efa skipti landnámsmenn höfuðmáli var að fylgjast með umferð á landi og sjó. Ísland byggðist á ófriðartíma, víkingaöld. Barist var um áhrif og völd á þeim eyjum sem norrænir menn námu áður en þeir komu hingað. Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltlandseyjar voru átakasvæði stærri og smærri víkingaherja og eflaust Færeyjar, þótt minna segi af ófriði þar.
Landnámsmaður á Íslandi varð að vera viðbúinn ófriði og hlaut að velja sér búsetu til samræmis. Útsýni skipti þar máli enda forsenda fyrir viðbrögðum að vita af hættunni í tíma. En líka varð að huga að flóttaleiðum ef óvinurinn væri liðssterkari en svo að raunhæft væri að berjast fyrir byggð og bú.
Tveir staðir á höfuðborgarsvæðinu eru líklegar sem fyrstu landnámsjarðirnar og þar með heimili þeirra Ingólfs og Hallveigar Fróðadóttur séu þau hjón annað og meira en tilbúningur.
Í fyrsta lagi Nesið, Seltjarnarnes. Þar er gott búland og höfuðból á miðöldum á meðan jörðin Reykjavík var kotbýli. Frá Valhúsahæð sést yfir til Suðurnesja, Snæfellsjökull blasir við handan Faxaflóa og mynni Hvalfjarðar er í sjónmáli. Skerjafjörður og vogar þar inn eru í sjónlínu sem og auðvitað Reykjavík. Fjallahringurinn allur myndar baklandið.
En þrátt fyrir að Nesið sé kostajörð með útsýni yfir sjó og land yrði víkingi er næmi þar land einn ókostur yfirsterkari öllum áformum að velja Nesið til búsetu. Frá Nesinu er aðeins ein flóttaleið á landi, yfir Eiðismýri. Og mýrin milli Skerjafjarðar og Eiðisvíkur er örmjó. Þar þyrfti ekki fjölmennt óvinalið til að hafa öll ráð Nesbúa í hendi sér, væri sótt frá landi og sjó. Enginn víkingur með sjálfsvirðingu byði fólkinu sínu upp á þau býti.
Í öðru lagi Hofsstaðir í Garðabæ. Nafnið eitt er næg ástæða til að vekja grun um að þar gæti fyrsti landnámsmaðurinn hafa skotið rótum, Ingólfur eða ekki. Landnámabók greinir frá 13 hofum og hof sem bæjarheiti er aðeins þekkt á 37 stöðum á landinu.
Hof eru tilbeiðslustaðir norrænna manna á víkingaöld. Staðarval í náttúrunni var jafnframt undirbúningur undir framhaldslíf og vettvangur samtals við máttarvöldin. Menn vönduðu til verka, áttu þeir þess kost. Fyrstu landnámsmennirnir áttu valkosti um bústaði.
Eins og í flestum öðrum fornum samfélögum var trúarlegt vald samfléttað því veraldlega. Goðar urðu höfðingjastétt á Íslandi og héldu tignarheitinu þótt landið kristnaðist rúmri öld eftir að landnám hófst. Goðar réðu fyrir hofum eins og þeir síðar réðu kirkjum. Líkt og kirkjur voru hofin félags- og valdamiðstöðvar. Sveitungar sóttu heim fyrirmennin, sýndu þeim lotningu um leið og goðum var blótað til árs og friðar.
Hofsstaðir eru miðlægir á höfuðborgarsvæðinu. Frá staðnum er útsýni til allra átta, út á sjó og upp til heiða. Tveir lækir afmarka tún Hofsstaða, báðir renna í Arnarnesvog. .Á undirlendinu neðan Hofsstaða eru náttúrukostir á Álftanesi, bæði lands- og sjávargæði. Hofsstaðabóndi gat bæði fylgst með búpeningi á úthögum og haft auga með mannaferðum um víðan völl og til hafs. Ef til ófriðar kæmi var hann með skipalægi í Hafnarfirði, annað á Álftanesi og gat sem hægast runnið upp til heiða ef óvígur her sækti að úr þrem áttum.
Hofstaðarhóll er austan Hraunkotslækjar, sem skipti bújörðum Ingólfs og bróðursonar hans, Ásbjörns, samkvæmt Landnámabók. Bú Ásbjörns, Skúlatún, er talið hafa verið á Álftanesi. Ingólfur hefur þá haft traustan mann á undirlendinu fyrir neðan Hofsstaði ef sótt var að höfðingjanum af sjó. Baklandið varði Vífill, leysingi Ingólfs, sem bjó á Vífilsstöðum ofan Hofsstaða. Viðlíka fyrirkomulag, að undirsátar gættu höfðingja sinna með búsetu nærri óðalssetrinu, var tíðkað um alla Vestur-Evrópu á miðöldum.
Landnámsskáli fannst á Hofsstöðum og er skálinn einn sá stærsti sem fundist hefur hér á landi, um 30 metrar að lengd. Skálinn hýsti ekki færri en um 30 manns, líklega fleiri. Enginn Meðal-Jón bjó staðinn á landnámsöld heldur stórhöfðingi sem valdi sér búsetu er uppfyllti skilyrði víkingaaldarbónda.
Söguna verður að skrifa í samræmi við heimildir sem völ er á. Þær heimildir sem við höfum um landnám eru ritheimildir, fornleifar og staðhættir. Í Reykjavík eru hvorki landgæði né útsýni og hvergi finnst þar hofið. Hofsstaðir skora þrennuna.
Landnámabók segir Ingólf búa við Arnarhvol ,,fyrir neðan heiði en kappinn hafði vetursetu við Ingólfsfjall austan Hellisheiðar áður en hann kom í bæinn. Séð frá Hellisheiði eru Hofsstaðir og Arnarhvoll álíka neðan heiðar.
Það væri lélegur bóndi og enn aumkunarverðari víkingur er settist að í Reykjavík þegar Hofsstaðir í Garðabæ stæðu til boða. En báðir staðirnir falla innan jarðnæðisins sem Ingólfur hélt fyrir sig, eftir að hann gaf frá sér lönd í austri og vestri.
Hvort sem Ingólfur og Hallveig eru stílfærsla Landnámabókar á fyrstu landnemunum eða ekki er einboðið að þau voru Garðbæingar en ekki reykvísk.
(Auðvitað er algjör tilviljun að þessi færsla verður til þegar forsætisráðherra Íslands er í fyrsta sinn borinn og barnfæddur Garðbæingur; sama gildir um sitjandi forseta lýðveldisins, sem býr á Álftanesi þar sem Ásbjörn var forðum útvörður Ingólfs).
Athugasemdir
Skemmtileg og fróðleg hugleiðing hjá þér Páll. Held að of mikið hafi verið gert úr því að bæir hafi þurft að standa hátt til að hægt var að fylgjast með búsmala það hefur frekar verið til að fylgjast með mannaferðum. Nokkuð er víst að landnámsmenn hafa verið búfróðir og skilið nauðsyn þess að velja sér gott bæjarstæði. Aðalatriðið var að þar væri þurrt, auðvelt að afl vatns og svo að það væri skýlt og sólar nyti sem lengst við.
Nógur mannskapur var oftast til við að gæta búsmala, sem aðallega hefur falist í því að missa fénð ekki á flóðum, en fjörubeit hefur örugglega verið mikið stunduð á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjörur hafa verið víðáttu miklar. Þá hefur fénður vafalaust leitað í Elliðarárdal og þar upp til heiða.
Eini kostur við Reykjavík á stríðstímum sem óneytanlega hafa verið á þessum tíma þar sem menn hafa þurft að búa við hugsanlegar skyndi árásir, var að landið var greiðfært yfirferðar, víða auðfarnir melar og traust land til yfirferðar.
Hlunnindi eru mikil á þessum tíma í Reykjavík , auðvelt að sækja í sjóinn þar sem ströndin gefur alltaf einhverstaðr skjól. Lax í Elliðám og eggjataka og fugl og auðvelt að komast út í eyjar. Jarðhitinn hafði auðvitað sína kosti. Frekar lítið afréttarland og ekki fýsilegt að missa sauðfé á Reykjnesskaga því ahnn er leitóttur og hættulegur í fyrstu snjóum. Gott og traust beitiland hefur verið í Vatnsmýrinni og flugvallarstæðinu og Kringlumýrinn eins og hlaða. Þannig að þessi kenning sem sett er hér fram er áhugaverð og vonandi að hún valdi ekki miklu skæklatogi milli Reykjavíkur og Garðabæjar.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 20.5.2017 kl. 11:48
Takk fyrir viðbragðið, Þorsteinn. Hvar myndir þú staðsetja heimabæ fyrsta landnámsmannsins á höfuðborgarsvæðinu, út frá þínum forsendum?
Páll Vilhjálmsson, 20.5.2017 kl. 12:17
Þar sem Perlan er. Þar nýtur sólar vel. Skólavörðuholti kæmi vel til greina, nema þar er vindasamt og berangur.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 20.5.2017 kl. 12:29
Öskjuhlíðin (Perlan) kæmi til greina. Þar er víðsýnt og stutt í grasnyt í Vatnsmýri og Klambratún. En erfiðara er að sjá fyrir sér blettinn sjálfan sem bæjarstæði, þar er of grýtt. Sama gildir um Skólavörðuholtið.
Land var allt grónara við landnám og kannski voru þessir tveir staðir vel fallnir til ábúðar.
Upplýstar ágiskanir um fyrsta landnámið á höfuðborgarsvæðinu hljóta að taka mið af staðháttum og heimildum. Ef við gefum okkur, orðræðunnar vegna, að Öskjuhliðin og Skólavörðuholt komi til greina og berum þá staði saman við Hofsstaði fer varla hjá því að Hofsstaðir hafi vinninginn.
Staðhættir á þessum þrem stöðum gætu verið sambærilegir. En Hofsstaðir hafa með sér örnefnið og fornleifar sem sýna að þar bjó stórbóndi ef ekki höfðingi á landnámstíð.
Páll Vilhjálmsson, 20.5.2017 kl. 12:59
Þetta er áhugaverð pæling en aðallega tvennt gerir hana hæpna, frásögn Ara fróða, sem segir meira að segja að öndvegissúlur Ingólfs standi enn í eldhúsi í Reykjavík þegar Íslendingabók er skrifuð.
, og síðan sú fullyrðing að Reykjavík hafi verið "hrjóstrug jörð."
Á móti því mæla örnefnin sem enda á "holt". Þegar landnámsmenn komu, þýddi orðið "holt" skógur, samanber orðið "holz" í þýsku og málshátturinn "oft er í holti heyrandi nær", þar sem orðið þýðir að sjálfsögðu skógur en ekki berangur.
Öndvegissúlunar voru nokkurs konar heimilisguðir Ingólfs, og enda þótt leiða megi sterkar líkur að því að formlega hafi landnámið sjálft farið fram með fórnarhátíð þar sem súlurnar voru látnar reka á land (þær gátu ekki borist að landi í Reykjavík ef þeim var varpað fyrir borð við suðuströndina), voru þær sitt hvorum megin við set höfðingjans, sem þær tilheyrðu.
Ingólfur var siglingamaður og valdi Reykjavík vegna þess að þar var afar líkt um að litast og í Hrífudal, eyjar framundan með þremur fjöllum handan fjarðar, gnægð hlunninda í eyjum, fiskislóð undan landi og heitar laugar í Laugarnesi.
Ómar Ragnarsson, 20.5.2017 kl. 13:28
Takk fyrir rýnina, Ómar. Ég hef það eftir Ólafi Lárussyni (Byggð og saga, 1944, s. 89) að Reykjavík var hrjóstrugt land. Ólafur trúði, eins og menn gerðu fram yfir miðja síðustu öld, að Ingólfur hafi sem fyrsti landnámsmaðurinn sett saman bú í Reykjavík.
Trúarrökin fyrir búi Ingólfs í Reykjavík eru þau að máttarvöldin tóku um það ákvörðun, sbr. öndvegissúlurnar. Ef við föllumst á þau rök verður að gera ráð fyrir að Ingólfur hafi reist tilbeiðslustað, hof, í Reykjavík. En hvorki eru til ritheimildir um það né örnefni og heldur ekki fornleifar. Trúarrökin gera ráð fyrir að forræði manna yfir nágrönnum sínum sé a.m.k. öðrum þræði á trúarlegum forsendum.
Sé litið til staðhátta er nær óhugsandi að fyrsti landnámsmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, hvort hann hét Ingólfur er aukaatriði, hafi búið í Reykjavík (í kvosinni, á eða við Skólavörðuholt eða í Öskjuhlíð) á meðan annar stórbóndi/höfðingi bjó á Hofsstöðum.
Á milli Reykjavíkur og Hofsstaða eru fáeinir kílómetrar, 4-7. Þetta er sama sveitin. Landnámsmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og fjölskylda hans er fremsta fólk sveitarinnar. Það stríddi gegn öllum venjum og siðum að fyrsti landnámsmaðurinn byggi Reykjavík en einhver annar sæti Hofsstaði og stjórnaði þar félags- og valdamiðstöð. Allt sem vitað er um siðu og háttu heiðinna landnámsmanna gengur í berhögg við slíka skipan.
Páll Vilhjálmsson, 20.5.2017 kl. 13:58
ps Ómar: Ari fróði var snæfellskur og ólst upp í Haukadal. Hann var ekki staðkunnugur á höfuðborgarsvæðinu.
Páll Vilhjálmsson, 20.5.2017 kl. 14:02
Samkvæmt Erich von Daniken var Ingólfur Arnarson geimfari. Nei nei.
Wilhelm Emilsson, 20.5.2017 kl. 14:31
Samkvæmt kenningu séra Þóris Stephensen, sem hefur lagst í rannsóknir á heiðni og kristni, misskildu síðari tíma menn það sem sagt er um að hann hafi varpað öndvegissúlunum fyrir borð.
Það gerði hann sannanlega hvorki úti fyrir suðurströndinni né út af Reykjanesi eða Garðskaga, því að sjávarstraumar bera allt lauslegt af því svæði norðvestur að Snæfellsnesi með Irminger-straumi Golfstraumsins.
Til dæmis rak lík bræðranna tveggja, sem fórust með Goðafossi út af Garðskaga, að landi yst á Snæfellsnesi en ekki í Reykjavík.
En hlutverk öndvegissúlnanna var samkvæmt kenningu séra Þóris að vera fulltrúar Ingólfs í sérstakri friðmælingar- eða fórnarhátíð, þar sem friðmælst var við landvættina.
Ingólfur "varpaði súlunum fyrir borð" rétt við flæðarmálið í Reykjavík þar sem hann hafði fyrirfram ákveðið að búa.
Til fróðleiks má geta þess að í þætti um þetta í sjónvarpi, var borin saman mynd af styttu Einars Jónssonar sem stendur við Hrífudal við Dalfjörð við mynd af alveg eins styttu á Arnarhóli í Reykjavík.
Ef myndinni frá Dalsfirði var spegilvent, þannig að Ingólfur horfði út til hafs eins og í Reykjavík var baksviðið alveg eins, hinn íslenski fjörður með Akrafjall, Skarðsheiði og Esju annars vegar, en hins vegar norskur fjörður með alveg samsvarandi norsk fjöll.
Ómar Ragnarsson, 20.5.2017 kl. 19:39
Takk fyrir þessa athugasemd, Ómar. Landnámabók segir að þeir Ingólfur og Hjörleifur hafi farið könnunarleiðangur til landsins og þótt búsælla sunnan lands en norðan. Ingólfur, hafi hann verið fyrsti landnámsmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, eða landinu öllu, gæti mögulega ákveðið búsetu fyrst og síðan efnt til trúartilburða, líkt og þú segir eftir séra Þóri.
Vandinn við trúarmiðjukenninguna er þríþættur. Í fyrsta lagi er Reykjavík engin sérstök bújörð, ef við hugsum hana út frá kvosinni og út að Kirkjuandi/Laugarnesi annars vegar og hins vegar Öskjuhlíð. Nesið, Seltjarnarnes, er aftur frambærileg bújörð og varð höfuðból, eins og talað er um í færslunni að ofan.
Í öðru lagi eru hvorki örnefni, ritheimildir né fornleifar sem renna stoðum undir trúarmiðjukenninguna. Ólafur Lárusson, sem ég vitna í að ofan, vekur athygli á að fátt segir af búsetu niðja Ingólfs. Ef trúin er miðlæg ástæða fyrir landnámi í Reykjavík skyldi ætla að heimildir væru um það. Blótsstaðir urðu stundum þing eða valdamiðstöðvar fyrirmenna - Reykjavík ekki.
Í þriðja lagi höfum við Hofsstaði. Örnefnið gefur til kynna blótsstað og skálinn þar er einn sá stærsti sem fundist hefur hér á landi. Landnámsskálinn í kvosinni, þessi í kjallara landnámssýningarinnar, er fimm metrum styttri í annan endann en Hofsstaðaskáli. Líkt og löngum síðar voru húsakynni til marks um veldi höfðingja. Skuggi Hofsstaða nær til Reykjavíkur og harla ólíklegt að fyrsti landnámsmaðurinn á svæðinu hafi setið í þeim skugga.
Kenningin um að Reykjavík líkist heimahögum Ingólfs, sumir myndu segja meints Ingólfs, er frumleg. Ég þekki mig ekki í Dalsfirði og verð að segja pass þar.
Páll Vilhjálmsson, 20.5.2017 kl. 20:30
Skemmtilegar hugleiðingar og það sem gæti einnig stutt þær er staðsetning þingmannaleiðar við Elliðavatn. Eftir að byggð jókst í Reykjavík á 18. öld þá varð Ártúnið leiðin austur fyrir fjall. Hafi slíkt verið á landnámsöld þá skýtur skökku við að fara svo sunnarlega sem þingmannleið er nema að byggð hafi verið sunnar, þe. í Garðabæ, Álftanes og Hafnafirði, til að hittast miðsvæðis. Líklegast má telja að byggðir hafi hrökklast frá þessum svæðum vegna hraunstraums og leitað þá meira norður til Reykjavíkur.
Rúnar Már Bragason, 21.5.2017 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.