Fimmtudagur, 18. maí 2017
Styttra nám, sjálfræði og hótel mamma
Síðustu áratugi hefur námsárum unglinga fjölgað. Um miðja síðustu öld fór ungt fólk á vinnumarkaðinn í kringum 16 ára, sem þá var sjálfræðisaldurinn. Í dag byrjar fólk að vinna heilsársstörf í kringum 25 ára aldur en fær sjálfræði 18 ára.
Heilsársstarf og að stofna heimili helst í hendur. Fæstir stofna til heimilis áður en þeir eru komnir í launað starf. Tímabilið frá sjálfræði til eigin heimilis er kallað vistin á hótel mömmu.
Stytting náms til stúdentsprófs um eitt ár og fyrirsjáanleg stytting iðnnáms gæti verið vísbending um að þróun síðustu áratuga, þar sem ungt fólk dvelur æ lengur í foreldrahúsum, sé að snúast við.
Tvær aðrar breytur í menntakerfi og á vinnumarkaði gætu haft áhrif í sömu átt. Sú fyrri er að konur fremur en karlar sækja í háskólanám. Hlutfall kvenna og karla í háskólum stefnir í að verða 60-40, konum í vil. Seinni breytan er að nám er ekki jafn mikið metið til launa og áður á vinnumarkaði. Háskólapróf gefur ekki sama forskot og áður til launa, miðað við þá sem fara ekki í háskóla.
Stúlkur eru bráðgerðari en drengir og fyrr tilbúnar að yfirgefa hreiðrið, hótel mömmu. Dæmigert heimilishald ungs fólks gæti orðið þetta: stúlkan er í háskólanámi og elur börn en drengurinn hættir um tvítugt i skóla og verður fyrirvinna.
Hugmyndir uppi um að stytta iðnnám í þrjú ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.