Þriðjudagur, 18. apríl 2017
Trump, Pútín og Erdogan: plott á mörgum hæðum
Pútín og Erdogan urðu vinir eftir misheppnaða stjórnarbyltingu gegn Erdogan síðast liðið sumar. Vesturveldin urðu óvinir Erdogan enda grunar Erdogan meinta vini sína í Nató um stuðning við byltingartilraunina.
Trump tók við embætti um áramótin og virðist ætla að bæta samskiptin við Erdogan, sem bæði glímir við innanlandsvanda og erfiðleika við suðurlandamærin þar sem Kúrdar gera sig líklega að stofna sjálfstætt ríki með stuðningi Bandaríkjanna.
Helsta bandaríska tímaritið um utanríkismál, Foreign Affairs, segir bandalag Pútín og Erdogan ástlaust hagkvæmnihjónaband. En þjóðríki þurfa ekki ást, aðeins sameiginlega hagsmuni.
Í áratugi er Tyrkland helsti bandamaður Bandaríkjanna í gáttinni að miðausturlöndum. Flugbækistöð Bandaríkjanna í Incirlik er notuð til árása- og eftirlitsflugs í Sýrlandi og Írak. Duldar hótanir Tyrkja að loka stöðinni sýna hve súrt var á milli Erdogan og Obama-stjórnarinnar.
Þrátt fyrir hagkvæmnihjónaband Erdogan og Pútín er aldagömul saga misklíðar Rússa og Tyrkja í þessum heimshluta. Trump gæti nýtt sér það.
En maðurinn sem gæti samhæft þremenningana Trump, Pútín og Erdogan í einu bandalagi heitir Alexander Dugin, kallaður Raspútín Pútíns, með vísun í munkinn sem naut trúnaðar síðustu keisarafjölskyldu Rússlands. Samkvæmt Bloomberg er Dugin maðurinn sem sætti Pútín og Erdogan. Og Dugin er aðdáandi Trump.
Í plottinu í kringum héraðshöfðingjana þrjá er nærliggjandi heimsálfa algerlega útundan. Hún heitir Evrópa og er án marktæks héraðshöfðingja í alþjóðamálum.
Trump óskar Erdogan til hamingju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.