Mánudagur, 17. apríl 2017
Erdogan og Hitler: lýðræði og veik ríki
Lýðræði er ekki stjórnskipun líkt og lýðveldi á Íslandi og Bandaríkjunum eða konungsbundið þingræði eins og í Bretlandi. Lýðræði er einkenni á stjórnarfari þar sem umræða, nokkurn vegin frjáls, er undanfari almennra kosninga um hverjir skuli fara með opinbert vald.
Ekkert ríki býr við fullkomið lýðræði. Nægir þar að nefna að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fékk færri atkvæði en mótframbjóðandinn en náði samt kjöri samkvæmt gildandi og viðurkenndum reglum þar í landi.
Þjóðir eiga það til að kjósa á móti lýðræði. Hitler náði völdum í þingkosningum, fékk þó ekki meirihluta, vegna þess að Weimarlýðveldið stóð veikt. Í fernum þingkosningum 1928 til 1932 óx fylgi nasista úr 2,6% í um og yfir þriðjungsfylgi. Þjóðverjar vissu ósköp vel að Hitler boðaði ekki lýðræði sem lausn á vanda Þýskalands - þvert á móti. Lýðræðið hafði veikt þýska ríkið, það sem eftir var af því í lok fyrra stríð.
Tyrkland samtímans er veikt. Landamæri ríkisins eru í uppnámi. Tvö ónýt ríki, Sýrland og Írak, liggja suður af Tyrklandi. Líkur eru á að nýtt ríki Kúrda verði stofnað á suðurlandamærum Tyrklands. Kúrdar eru um 35 milljónir og um 14 milljónir þeirra eru í Tyrklandi. Nýtt ríki Kúrda væri ógn við tilvist tyrkneska ríkisins.
Í hundrað ár, frá dögum Kemal Ataturk, hafa Tyrkir reynt að vesturlandavæðast. Lýðræðið þar í landi var veikt, herforingjar ýmist taka völdin eða hafa hönd í bagga með hverjir stjórna áratugina eftir seinna stríð.
Erdogan forseti Tyrklands stóð frammi fyrir valdaránstilraun fyrir nokkrum mánuðum. Hann hélt naumlega völdum. Flokkur hans er bandalag múslímahópa sem eru tortryggnir ef ekki í beinni andstöðu við vestræn gildi. Þegar innanlandsólga vex og tilvist tyrkneska ríkisins verður tvísýnni eykst eftirspurnin eftir manni sem á grunni fornra trúarsiða getur varið Tyrkland.
Lexían af samanburði Hitlers og Erdogan er að lýðræði þrífst illa í ríkjum sem eru sjálfum sér sundurþykk og standa frammi fyrir tilvistarógn.
Segja leikvöll kosninganna ójafnan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stóð Weimar-lýðveldið frammi fyrir tilvistarógn árið 1933? Hverri? Engin nágrannaríki ógnuðu því.
Jón Valur Jensson, 18.4.2017 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.