Fimmtudagur, 6. apríl 2017
Valdabarátta í Washington
Bandaríkin komast næst því að vera heimslögregla sem ákveður hvað má og hvað ekki í alþjóðasamfélaginu. Lögreglustjórinn þar á bæ er forsetinn.
Trump tók við embætti um áramótin og boðaði nýjar áherslur. Rússar voru ekki lengur höfuðóvinurinn heldur herskáir múslímar. En lögregluliðið, þ.e. embættismannakerfið, býr að langri hefð um að Rússar séu vandræðagemsinn í alþjóðasamfélaginu.
Trump mætti einnig andstöðu hjá öflugum fjölmiðlum, sem ala á þeim grun að forsetinn sé útsendari frá Kreml.
Á meðan valdabarátta geisar í Washington logar fjölþjóðlegt ófriðarbál í miðausturlöndum þar sem Rússland styður shíta múslíma (Assad forseta Sýrlands, Íran) en Bandaríkin súnni múslíma (Sádí Arabía, Tyrkland). Sumir hópar, t.d. Kúrdar, njóta velvildar beggja. Í orði kveðnu standa Rússar og Bandaríkjamenn sameiginlega gegn herskáum múslímum. En aðeins í orði kveðnu. Baráttan um ítök í ríkjaskipun miðausturlanda er í forgrunni.
Valdabaráttan í Washington hverfist um afstöðuna til Rússa. Án samvinnu við Rússa eru litlar líkur að ófriðarbálið í miðausturlöndum verði slökkt. Heimslögreglan ræður ekki ein við verkefnið.
Sigur fyrir þjóðaröryggisráðgjafann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.