Laugardagur, 28. janúar 2017
Austfirski kommúnisminn er rauðklædd fjallkona
Sósíalistaflokkurinn og síðar Alþýðubandalagið réðu ferðinni á Norðfirði. Neskaupstaður var rauði bærinn. Stærsta fyrirtækið í bænum, Síldarvinnslan, er stofnuð af bæjarbúum fyrir meira en hálfri öld og samvinnufélagi útgerðarmanna.
Mesti leiðtoginn sem rauði bærinn ól af sér var Lúðvík Jósepsson er varð formaður Alþýðubandalagsins. Lúðvík var einarður þjóðernissinni og baráttumaður bættra lífskjara alþýðunnar. Hann var sjávarútvegsráðherrann sem hóf þorskastríðin við heimsveldið Bretland á síðustu öld þegar hann færði einhliða út landhelgina í 12 mílur árið 1958.
Austfirski kommúnisminn er lókalútfærsla á rétti alþýðu manna til kosta og gæða landsins og fiskimiðanna. Rauðklædd fjallkona væri tákn við hæfi. Þangað til að hún kemur fram er sovétfáni Einars Más vel brúklegur.
Kommablótið haldið í 51. sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Margt gott er hægt að segja um Lúðvík Jósepsson og ötula baráttu hans fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar og kjörum alþýðu.
Sósíalistar og síðar Alþýðubandalagið löguðu að sig að mörgu leyti vel að íslenskum aðstæðum og hefði ekki haldið meirihluta sínum í Neskaupstað nema með því að blanda sósíalismann við íslenskar aðstæður og vera hagsýnir.
Lúðvík hafði yfirburða þekkingu á íslenskum sjávarútvegi sem kom eftirminnilega í ljós þegar hann bókstaflega valtaði yfir Eggert G. Þorsteinsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra Viðreisnarstjórnarinnar í eftirminnilegri sjónvarpssnerru.
Því miður tókst hinni "rauðklæddu fjallkonu" ekki að halda orðstír sínum hreinum, heldur stóð fremst í flokki þeirra sem létu fallast í faðma við Alcoa, eitt af "alþjóðlegum stórfyrirtækjum arðráns og auðsöfnunar", svo notuð sé skilgreining kommanna sjálfra, til þess að standa að verstu mögulegu umhverfisspjöllum á Íslandi.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2017 kl. 18:58
Menn gleyma flestir 1. þorskastríðinu 1953 þegar fært var út í 4 mílur og olli hafnbanninu og upphafi Rússlandsviðskiptanna...
Guðmundur Böðvarsson, 28.1.2017 kl. 19:15
Rétt hjá Guðmundi Bö., þá þarf ég ekki að nefna þetta.
Lúðvík var ágætur maður og eldklár eins og þeir aðrir í þrístirninu: Bjarni Þórðarson bæjarstjóri og Jóhannes Stefánsson, þótt ekki hafi afi minn Hinrik og amma Karítas, hvort í sínu trúfélaginu, aldrei kosið þá kommana, heldur Sjálfstæðisflokkinn.
Jón Valur Jensson, 28.1.2017 kl. 19:26
... þótt aldrei hafi þau ... kosið ...
átti þetta auðvitað að vera.
Jón Valur Jensson, 28.1.2017 kl. 19:27
Snerist nú minnst um þetta austfirsk róttækni.
Eins og þeir Bjarni og félagar á Neskaukssta bentu á, að þá var Neskauksstaður bara lítið einangrað samfélag í kapítalísku landi og umhverfi og það var ekkert raunsætt að fara að reka sjálfstæðan sósíalisma.
Til þess er jafnframt að líta, að Neskaupsstaður var með atvinnulíf álíka og mörg önnur þorp umhverfis landið og framkvæmd og framleiðsla eins og stjórnendur með svipuðum hætti. Sósíalista og félagshyggjumenn héldu meirihluta meira en 40 ár.
Hinsvegar þreifst þessi hugsjón, samvinnu og jafnaðarhugsjón, undir þessari regnhlíf sem langvarandi vinstri meirihluti skapaði. Það var gerjun og Neskaupsstaður sennilega ,,öðruvísi" að mörgu leiti vegna þessarar langvarandi vinstri-mennsku.
Þeir stóu að ýmsu fleira en fiski þeir Lúðvík, Bjarni og Jóhannes. Það þurfti að byggja skóla, spítalann, fjórðungssjúkrahús og glæsilegt félagsheimili.
Það var hugað að infrastrúktúr hjá þeim sósíalistum. Ekki eins og hjá sjöllum hér og ofsa-hægri þjóðrembingum einhverjum þar sem öllu er stolið, flutt á afland og infrastrúktúr og samfélagskerfi í molum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.1.2017 kl. 22:27
Lúðvík Jósefsson var samnefnari allra, hugsanlegra og skynsamlegra markmiða, sem hver sá er ætlar sér frama í pólitík ætti að hafa að leiðarljósi.: Að gera þjóð sinni gagn og fórna til þess eigin starfskröftum. Menn eins og Lúðvík og aðrir, sem eitt sinn fundust á Íslandi, finnast trauðla lengur, í nokkrum flokki. Öll hugsjón er horfin og á Alþingi situr óþekket lið, flestum landsmönnum að litlu kunnugt. Hvernig pólitískt litróf lítur út í dag, á Norðfirði skiptir ekki öllu, en mikið óska ég þess að allir skemmti sér vel, sama hvaða fána þeir flagga.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 28.1.2017 kl. 23:35
Það er rólegt á samfélagsmiðlum þessa dagana. Þá vinnst tími til að rifja upp sitthvað um pólitískar hetjur fyrri ára. Lúðvík var sannarlega einn af þeim og ég kynntist dugnaði og ósérhlífni Steinars sonar hans sem hefði gagnað vel í pólitík,en hann kaus að vinna að uppgangi Breiðabliks i Kópavogi,það munaði um minna.
Helga Kristjánsdóttir, 29.1.2017 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.