Samfylkingin í fjármálaráðuneytið

Í ríkisstjórn vinstriflokkanna gæti Samfylkingin fengið fjármálaráðuneytið. Færi svo yrðu Samtök fjármálafyrirtækja hoppandi kát enda nýr framkvæmdastjóri þeirra enginn annar en fyrrverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sem þartil fyrir skemmstu var þingmaður Samfylkingar.

Katrín er núna hluti af baklandi Samfylkingar. Komist Samfylking í ríkisstjórn verður baklandið lifandi sem aldrei fyrr, jafnvel þótt um örflokk sé að ræða með 5,7 prósent fylgi.

Katrín gæti reynst nýjum vinnuveitendum sínum gulls ígildi. Samtök fjármálafyrirtækja ,,byggja upp heil­brigt og traust fjár­mála­kerfi", eins og alþjóð veit. Á tímum útrásar höfðu samtökin forgöngu um gengistryggð lán, sem síðar reyndust ólögleg, og lögðust jafnframt á árarnar við að gera Íslendingum kleift að opna bankareikninga í útlöndum, til dæmis í Panama.

Katrínu er óskað velfarnaðar í starfi.


mbl.is Katrín ráðin framkvæmdastjóri SFF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Smá leiðrétting.

Gengistryggð lán "reyndust" ekkert vera ólögleg. Þau voru með öllu ólögleg frá og með 1. júlí 2011 og það stendur berum orðum í frumvarpi til þeirra laga sem þá tóku gildi. Þetta stóð líka í umsögn samtaka fjármálafyrirtækja við það frumvarp þar sem þau mótmæltu banninu hástöfum. Frumvarpið var samt samþykkt án þess að því væri breytt, sem þýðir að samtökin vissu mætavel allan tímann að slík lán væru ólögleg þó þau hafi ekki þóst kannast við það seinna þegar á það reyndi. Þegar ólögmætið var svo að lokum staðfest af dómstólum voru sett lög kennd við flokksbróður Katrínar, beinlínis glæpnum til varnar, sem færðu bönkunum hundruðir milljarða á silfurfati. Fimm árum síðar fær Katrín fínt og vel borgað starf að launum fyrir velvildina.

Ég ætla ekki að taka svo sterkt til orða að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða, heldur aðeins benda á að samkvæmt skilgreiningu Ríkislögreglustjóra virðast öll helstu skilyrði þess vera uppfyllt og gott betur.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2016 kl. 00:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ártalið hér að ofan átti auðvitað að vera 2001 en ekki 2011.

Biðst velvirðingar á þeirri innsláttarvillu.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2016 kl. 00:32

3 Smámynd: Elle_

Já þetta er satt hjá Guðmundi.  Gengislánin voru loks dæmd ólögleg.  Og fjármálafyrirtækin vissu að þau væru ólögleg en rukkuðu samt árum saman fyrir gríðarlegar hækkanir vegna gengismunar og þögðu.  Fyrirtækin og samtök þeirra stóðu svo harkalega í veginum fyrir að fólk fengi tapið bætt.

Elle_, 19.11.2016 kl. 08:26

4 Smámynd: Elle_

Og ég mótmæli að Katrín Júlíusdóttir sem stóð með gengissvindlinu með flokknum sem er nú næstum útdauður, fái neitt með fjármál ríkisins að gera eða verði í rikisstjórn.

Elle_, 19.11.2016 kl. 08:37

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem er mest sláandi við þetta er hversu margir vissu eða máttu vita um ólögmætið en þögðu yfir því þegar efasemdir vöknuðu.

Fyrst er að nefna flutningsmann frumvarpsins til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þáverandi viðskiptaráðherra Valgerði Sverrisdóttur.

Samtök banka og verðbréfafyrirtæka voru ekki þau einu sem mótmæltu banninu í umsögn sinni sem var undirrituð af Guðjóni Rúnarssyni, forvera Katrínar. Því var einnig mótmælt í umsögn Verslunarráðs Íslands sem var undirrituð af þáverandi aðstoðarframkvæmdastjóra ráðsins, Birgi Ármannssyni.

Þessar umsagnir voru svo teknar til meðferðar af efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem ákvað að gera ekki breytingu á gengistryggingarbanninu. Álit nefndarinnar um málið undirrituðu: Vil­hjálm­ur Eg­ils­son, form., frsm. Ein­ar Odd­ur Kristjáns­son. Ein­ar K. Guðfinns­son. Hjálm­ar Árna­son. Jóhanna Sigurðardótt­ir, með fyr­ir­vara. Ögmund­ur Jónas­son, með fyr­ir­vara.

Við atkvæðagreiðslu um frumvarpið sátu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hjá en það var þó samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þingmanna Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra. Meðal þeirra voru einstaklingar á borð við Davíð Oddsson sem síðar varð seðlabankastjóri og gegndi þeirri stöðu í hruninu, ásamt Þorgerði K. Gunnarsdóttur þáverandi þingkonu Sjálfstæðisflokksins og nýkjörinni þingkonu Viðreisnar.

Það er ekki eins og þetta séu allt grunlausir kjánar, þarna á meðal eru allnokkrir lögfræðingar, einn sem síðar varð seðlabankastjóri, annar sem síðar varð þingforseti og a.m.k. tvær sem síðar urðu ráðherrar þar af önnur forsætisráðherra. Hvar var þetta fólk eiginlega þegar þúsundir heimila horfðu upp á gengisbundnar skuldir sínar margfaldast ólöglega í hruninu?

Ég læt þessu lokið með tilvitnun úr greinargerð með umræddu frumvarpi:

"Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi."

Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi!

Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2016 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband