Föstudagur, 12. ágúst 2016
113 manna fjöldahreyfing Pírata
Í suðurkjördæmi kusu 113 manns í prófkjöri Pírata en einir 413 áttu rétt að kjósa. Píratar sigla með himinskautum í fylgismælingum en þegar kemur að þátttöku í stjórnmálum eru það aðeins fjölskylda og vinir þeirra sem eru í leit að þægilegri innivinnu sem nenna að velja frambjóðendur.
Píratar eru dæmisaga um vantraust almennings á lýðræðinu. Píratar þykjast valkostur við hefðbundin stjórnmál, og fá út á það fylgi í skoðanakönnunum, en fáir sýna pólitísku starfi Pírata áhuga.
Píratar vilja stokka upp stjórnskipun landsins, með nýrri stjórnarskrá, en eina baklandið sem þeir hafa eru prósentutölur í fylgismælingum. Maður veit ekki hvort það sé grátbroslegt eða bara sorglegt.
Smári efstur á lista Pírata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mýmörg dæmi eru um mannfæð á ýmsum fundum jafnvel stærstu stjórnmálaflokka landsins og því afar óvísinalegt að dæma um fylgi og stefnur flokka eftir því.
Ómar Ragnarsson, 12.8.2016 kl. 12:44
Nú væri gaman að fá upp á borðið tölfræði um þáttöku í prófkjörum annarra flokka. Það gæti þó reynst erfitt, því þeir halda ekki einu allir prófkjör. Eru sumir meira að segja með miðstýrðar uppstillingarnefndir sem handvelja "æskilega" aðila vegna þess að þeir treysta ekki kjósendum og óttast að einhver með sjálfstæðan vilja gæti jafnvel komist á lista.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2016 kl. 13:14
Réttmætar athugasemdir hjá ykkur báðum, Ómar og Guðmundur.
Engu að síður: þegar stjórnmálaafl hyggst gerbreyta stjórnskipun landsins með nýrri stjórnarskrá, og fær 25 til 30% fylgi í könnunum, skyldi ætla að nokkur straumur fólks legði leið sína til slíks stjórnmálaafls. En þess sjást ekki merki í þátttöku í prófkjöri Pírata. Hér er eitthvað málum blandið.
Páll Vilhjálmsson, 12.8.2016 kl. 15:05
Á þessum tímapunkti hafa 935 manns greitt atkvæði í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt (óstaðfestum) upplýsingum sem ég hef fengið eru rúmlega 2.000 skráðir flokksmenn á höfuðborgarsvæðinu með kosningarétt í prófkjörinu. Samkvæmt því er kjörsóknin að nálgast 50%. Nú væri gaman að fá tölur til samanburðar um hlutfallslega þáttöku þeirra sem hafa kosningarétt í prófkjörum annarra flokka. Ég hef það nú á tilfinningunni að hún sé ekkert ofboðslega mikið meiri en 50%, en þætti gott að fá það staðfest.
Hér er súlurit frá Evrópuvaktinni sem haldið var úti af tveimur rótgrónum Sjálfstæðismönnum, þeim Styrmi Gunnarssyni og Birni Bjarnasyni:
Mér skilst að skráðir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum séu yfir 50.000 og um helmingur þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þær forsendur virðist hlutfallsleg þáttaka í prófkjörum flokksins sjaldan hafa náð yfir þriðjung. Sé það rétt ályktað, þá er hlutfallsleg þáttaka í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu nú þegar meiri en almennt hefur verið í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Ég viðurkenni þó að þetta eru grófir útreikningar og ég er ekki með hárnákvæmar tölur í höndunum. Það myndi þjóna hagsmunum málefnalegrar umræðu að fá þetta betur upplýst.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2016 kl. 15:20
Vinstri menn eru sterkastir í framhleypni og upplýsingum til almúgans um hvað þeir eru aðdáunarverðir.Þeir ráða yfir mörgum öflugustu fjölmiðlum landsins þaðan sem flott útlenzkt nafn festist í kolli þeirra, sem löngum voru kallaðir "pólitísk viðrini",vegna áhugaleysis um kosningar. Þegar til alvörunnar kemur verður stuggað við þeim sem löngum klifuðu á frasanum;"Það er sama rassgatið undir þeim öllum"... Þetta súlurit Styrmis og Björns,endar á árinu 2012.En mér skilst að enn séu menn afar latir að taka þátt i prófkjörum gömlu flokkanna!
Helga Kristjánsdóttir, 12.8.2016 kl. 18:21
Samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi sjálfstæðisflokksins og pírata á svipuðu róli. Samt heyrist einhverra hluta vegna sjaldan talað um að fylgi sjálfstæðisflokksns sigli með himinskautum...
Af hverju skildi það nú vera?
Haraldur Rafn Ingvason, 13.8.2016 kl. 18:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.