Stærstu tíðindin: enginn forsetaflokkur

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti 1996 varð til forsetaflokkur vinstrimanna sem skilaði sér í uppstokkun vinstriflokka um aldamótin. Þegar Ólafur Ragnar náði endurkjöri 2012 stóðu að baki honum hægrimenn sem árið eftir bjuggu til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Á bakvið kjör Guðna Th. er ekki hægt að greina bakland sem gæti orðið að forsetaflokki. Stuðningssveitin á bakvið nýjan forseta er brotakennd og á sér engan annan samnefnara en Guðna Th.

Að því sögðu er líklegt að umrótið í forsetaslagnum hafi haft töluverð áhrif á fylgismælingar stjórnmálaflokkanna síðustu vikurnar. Þar stendur tvennt upp úr; lækkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og vöxtur Viðreisnar.

Forsetakjörið var Sjálfstæðisflokknum erfitt. Mesti leiðtogi flokksins frá dögum Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri tók slaginn en galt afhroð. Framsóknarmenn veðjuðu á Höllu Tómasdóttur síðustu dagana fyrir kjördag og geta eignað sér öskubuskufylgið sem fleytti henni í annað sætið. Vinstriflokkarnir voru tvístraðir, eins og löngum áður. Fylgi þeirra dreifðist á Andra Snæ, Guðna Th. og Höllu. Píratar voru hvergi sjáanlegir í forsetabaráttunni.

Pólitískt landslag eftir kjör Guðna Th. er fullt af möguleikum.


mbl.is Guðni kjörinn forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband