Skuldir, skemmtun og kapítalismi

Skuldir eru ekkert gamanmál, allra síst skuldir í vanskilum. Sjónvarpsatriði þar sem þáttarstjórnandi kaupir vanskilaskuldir og afskrifar þær í beinni er skemmtiatriði í krafti þess að grimmur fáránleiki innheimtufyrirtækja er afhjúpaður.

Efnahagskerfið sem við búum við, kapítalismi, gengur mikið til út á skuldsetta neyslu. Síðustu misseri er kreppa sem birtist í tregðu almennings að taka lán og kaupa neysluvörur sem það í flestum tilfellum getur verið án. Svar kapítalismans er að gera peninga eins ódýra og mögulegt er til að fá fólk í meiri neyslu. Ef peningar án vaxta duga ekki verður peningum til þrautavara dreift úr þyrlu - í takt við hugdettu Milton Friedman.

En peningar geta aðeins í skamma stund verið ókeypis. Efnahagskerfið myndi brenna upp peningana í verðbólgu ef þeir yrðu til langframa ókeypis. Við færum aftur á stig vöruskipta ef peningar verða verðlausir.

Kapítalismi er skásta efnahagskerfið sem þekkt er. Erfitt er að sjá fyrir að lýðræði, eins og við þekkjum það, fái þrifist án kapítalisma. Kommúnismi var prófaður en brást, bæði sem efnahagskerfi og stjórnkerfi. Á miðöldum var reynt lénskerfi sem hélt samfélaginu í skorðum en byggðist á arðráni og misrétti.

Til að kapítalismi virki verða peningar að halda gildi sinu, innan eðlilegra vikmarka, og skuldir að innheimtast, aftur innan eðlilegra vikmarka. Án innheimtu á skuldum tapast gildi peninga og þar með hrynur kapítalisminn.

Það er kaldhæðni að í háborg kapítalismans, Bandaríkjunum, skuli enn ekki fundin lausn á þeim alvarlega vankanta að útgjöld einstaklinga vegna heilsubrests eru ekki neysla. Enda keypti þáttastjórnandinn John Oliver einmitt skuldir sjúklinga á hrakvirði og afskrifaði þær.

Félagslegur kapítalismi, líkt og rekinn er í Vestur-Evrópu, er snöggtum mannúðlegri en sá ameríski.

 


mbl.is Oliver sló gjafamet Opruh
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband