Fjölmiðill stundar múgæsingu - Lára Hanna eltir

Netmiðillinn Stundin reyndi í gær að efna til galdrafárs á netinu með frétt um fjármálmál eiginkonu forsætisráðherra. Fréttin er röng í fyrstu setningu, lævís í inngangi, samtíningur í meginmáli og hrapar að niðurstöðu sem stenst ekki.

Fyrsta setning fréttarinnar: ,,Í lok síðasta árs lagði ríkisstjórn Íslands fram frumvarp um breytta skattlagningu," er röng. Ríkisstjórnir leggja ekki fram frumvörp heldur ráðherrar og eftir atvikum þingmenn. En til að samsæriskenningin í fréttinni fengi trúverðugleika, þ.e. að forsætisráðherra hyglaði hagsmunum eiginkonunnar, varð að ljúga í fyrstu setningu.

Í lævísum inngangi fréttarinnar er talað um að frumvarpið sé ,,flókið" og komi sér ,,óþægilega vel fyrir þá kröfuhafa sem voru með félög sín skráð á Tortóla-eyju." Í stað þess að útskýra hvað sé flókið og hvað komi sér vel segir: ,,Við skulum hins vegar demba okkur út í umræðurnar á Alþingi til þess að fá tilfinningu fyrir málinu."

Hlutlægar staðreyndir eru aukaatriði, aðalatriðið er að búa til ,,tilfinningu" fyrir málinu. Umorðað: hér er ætlunin að efna til áhlaups á æru forsætisráðherra með röngum málflutningi og haturstilfinningar að leiðarljósi.

Markaðsstjóri og einn af eigendum Stundarinnar, Heiða B. Heiðars, fylgdi fréttinni úr hlaði á fésbók með þessum orðum: ,,Krakkar þetta er gull".

Lára Hanna Einarsdóttir svaraði kalli markaðsstjóra Stundarinnar og bjó til klippuútgáfu af samtíningi fréttarinnar sem átti að gefa innihaldinu trúverðugleika. Lára Hanna notaði sömu fyrirsögn og er í fréttinni, þar sem gefið er að forsætisráðherra maki krók eiginkonu sinnar.

Stundin gerði enga tilraun að fá álit þeirra sem þekkja til málsins. Upplýsingar eru óþarfar þegar safnað er í galdrabrennu. Vísir, á hinn bóginn, bar frétt Stundarinnar undir Frosta Sigurjónsson sem útskýrði að eiginkonu forsætisráðherra hafi verið ómögulegt að hagnast á frumvarpinu.

Þegar fjölmiðlar gera skipulega út á múgæsingu með fréttaflutningi, sem lýst er hér að ofan, er viðbúið að umræðan verði meira í ætt við móðursýki en rökræður.


mbl.is Bar ekki skylda að segja frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Fyrsta setning pistilsins er röng.

Wilhelm Emilsson, 24.3.2016 kl. 11:43

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

yellD-Ó-M-A-R-I ......

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2016 kl. 15:26

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta snýst ekkert um hvort aðgerðir ráðherrans hafi haft áhrif á hagsmuni eiginkonu hans, hvorki jákvæð né neikvæð, heldur þá staðreynd að vegna þeirra hagsmunatengsla braut hann gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga. Þá er alveg sama hvort hinn vanhæfi græddi eða tapaði á vanhæfinu. Það þarf ekki einu sinni að hafa haft nein áhrif á niðurstöðu málsins, heldur er það vanhæfið sjálft sem gerir þetta að lögbroti. Enginn hefur andmælt því að forsætisráðherra hafi framið brotið, ekki einu sinni hann sjálfur.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.3.2016 kl. 18:01

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hæfisreglur ,andsk....teprur,það er hæfi forsætisráðherra sem fer fyrir brjóstið á ykkur,honum tekst vegna hæfni sinnar að skjóta ykkur ref fyrir rass.

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2016 kl. 18:58

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hæfi og hæfni eru tvennt ólíkt og það er algjör óþarfi að vera að rugla saman þessum óskyldu hugtökum. Engu máli skiptir hversu hæfileikaríkur sá er sem brýtur hæfisreglur stjórnsýslulaga, sömu lög gilda fyrir alla.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.3.2016 kl. 20:02

6 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Guðmundur skýrir þetta mjög vel.

Wilhelm Emilsson, 24.3.2016 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband