Samfylkingarpopúlismi

Samfylkingin trúir eigin áróðri um að verðtrygging sé höfuðmeinsemd á Íslandi. Jafnvel skráðir og skjalfestir jafnaðarmenn, t.d. hagfræðingurinn Jón Steinsson, súpa hveljur yfir lýðskruminu:

Hvað gerist þegar það kemur gott íslenskt verðbólguskot (eins og alltaf gerist með reglulegu millibili) og vextir á óverðtryggðum lánum hækka upp úr öllu valdi? Þá munu menn óska þess að geta jafnað þann skell yfir lánstímann. En það er einmitt það sem verðtryggð lán gera. [...] Úff hvað það er pirrandi að vera íslenskur jafnaðarmaður.

Samfylkingin eltir skottið á sjálfri sér í leit að einhverju að bíta í. Með skottið í kjaftinum étur flokkurinn sig upp að innan.

 


mbl.is Vilja afnema verðtrygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess má geta að samskonar frumvarp var lagt fram í mars 2013 þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn, og hún gerði ekkert með það þá. Það hlýtur að vekja upp þá spurningu hvers vegna þau gera þetta núna?

1138/141 frumvarp: verðtrygging neytendasamninga

Annað:

"Hvað gerist þegar það kemur gott íslenskt verðbólguskot (eins og alltaf gerist með reglulegu millibili) og vextir á óverðtryggðum lánum hækka upp úr öllu valdi?"

Svarið við þeirri spurningu er mjög einfalt. Þegar stærsti einstaki verðbólguvaldurinn, sjálf verðtryggingin, hefur verið afnuminn, þá hætta verðbólguskotin að koma með "reglulegu millibili". Auk þess er ekkert náttúrulögmál að verðbólgu þurfi að fylgja háir vextir. Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, eru lánveitendum og fjármagnseigendum boðnir ríkistryggðir jákvæðir raunvextir alveg sama hversu miklu þeir sjálfir klúðra í meðferð sinni á þeim fjármunum sem þeir sýsla með. Með afnámi verðtryggingar yrði þeim skapað nauðsynlegt aðhald og hvatar til þess að haga sér skynsamlega, svo fjárfestingar þeirra skili ásættanlegri ávöxtun. Þannig yrðu hagsmunir fjárfesta og neytenda samtvinnaðir að þessu leyti, en aðeins ef ríkistryggð jákvæð raunávöxtun verður afnumin og annars ekki.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.1.2016 kl. 21:16

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Að mínu mati er þetta ekki spurning um verðtryggingu heldur hvernig verðtrygging er látin virka.

Að verðtryggja höfuðstól er eitt en að verðtryggja vexti er allt annað og er, að mínu viti, hvergi gert á byggðu bóli nema á Íslandi. Það hét einu sinni vaxta vextir og flokkast undir yfirdráttarvexti.

Þetta tvennt á alls ekki heima saman.

Sindri Karl Sigurðsson, 22.1.2016 kl. 00:08

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hvað réttlætir verðtryggð lán, þegar launakaupmáttur lántaka er ekki jafn örugglega verðtryggður eins og verðtryggðar kröfur verndaðra lánastofnana?

Og ég segi eins og Guðmundur, hvers vegna vilja Samfylkingar gera eitthvað í þessu allt í einu núna? Hverjar eru líkurnar á að eitthvað réttlæti náist fram núna, frekar en 2013 ?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.1.2016 kl. 00:46

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sindri. Þú hefur talsvert til þíns máls. Hinsvegar er rétt að benda á að það með því að verðtryggja höfuðstólinn verðtryggjast um leið vextirnir, þ.e.a.s. ef farið er eftir reikniaðferð seðlabankans þá leggjast verðbætur á höfuðstól áður en vextir eru reiknaðir á hverjum gjalddaga. Það gerir að verkum að vextirnir eru ekki aðeins reiknaðir af höfuðstólnum eins og á að gera, heldur einnig af verðbótunum, þrátt fyrir að lántakandinn hafi aldrei beðið um neitt lán fyrir neinum verðbótum.

Þar liggur nefninlega hundurinn grafinn, því það er engin lagastoð fyrir þessari aðferð, heldur heimila lög um vexti og verðtryggingu eingöngu samninga sem kveða á um að greiðslur af láni séu verðtryggðar, en hvergi er himild fyrir verðtryggingu höfuðstóls. Ef farið væri eftir lögunum, þá ættu verðbætur í raun að reiknast eins og álag á vextina, það er að segja leggjast við þá (samlagning) í stað þess að reikna vexti af bæði höfuðstólnum og verðbótum sem reiknast af þeim höfuðstól(margföldun).

Flestir sem hafa lokið grunnskólanámi þekkja muninn á margföldun og samlagningu, og hvort þeirra leiðir jafnan til hærri útkomu. Ef maður leggur saman 4 + 4 kemur út 8 en ef maður margfaldar saman 4 * 4 kemur út 16, og ef maður leggur saman 10 + 10 koma út 20 en ef það margfaldað saman 10 * 10 kemur út 100, og svo koll af kolli þannig að því hærri sem tölurnar eru, þeim mun meira ber á milli í útkomunni eftir því hvort notuð er samlagning eða margföldun. Þetta er hinn "eitraði kokteill" sem oft er talað um, og leiðir í raun til sömu útkomu og vaxtavextir.

Svo tekið sé raunhæft dæmi, með einni árlegri afborgun af láni sem stendur í 10 milljón krónum, en vextir eru 5% og verðbólga einnig 5%. Ef notuð er lögboðna aðferðin, þá reiknast 5% vextir af 10 milljónum = 500.000 og einnig 5% verðbætur = 500.000. Með samlagningaraðferðinni verður útkoman því 1.000.000 krónur á ári í vexti og verðbætur. Með margföldunaraðferðinni eru vextirnir hinsvegar reiknaðir af bæði höfuðstól og verðbótum, þ.e. 5% af 10,5 milljónum = 525.000. Samanlagðir vextir og verðbætur verða því ekki ein milljón heldur 1.025.000 kr. eða 25.000 krónum hærri.

Vandamálið eykst svo vegna þess að afborgunin er reiknuð af verðbættum höfuðstólnum, þannig að ef lánið er með jöfnum árlegum afborgunum til 40 ára, þá verður afborgunin af höfuðstólnum ekki nema 262.500 kr. og eftirstöðvarnar því 10.237.500, eða 237.500 hærri en fyrir afborgunina. Lánið hefur því hækkað næstum jafn mikið og greitt var af því, sem er algjörlega öfugsnúið, því höfuðstól á undir öllum eðlilegum kringumstæðum að lækka við hverja afborgun sem er greidd af láninu. Þannig er það allsstaðar í heiminum, og ætti líka að vera annig á Íslandi, ef farið væri eftir íslenskum lögum við útreikninginn. Svo er fólki talin trú um að þetta sé "betra" fyrir það vegna þess að þá verður afborgunin lægri en ella, á sama tíma og það er ekki upplýst um að ólíkt því sem eðlilegt er að afborgun lækki höfuðstól, þá hækkar hún hann.

Lán sem hækkar við hverja afborgun, er augljóslega aldrei hægt að endurgreiða, því það hækkar bara og hækkar við hverja greiðslu. Það er því hrein blekking að það séu einhverjir jákvæðir kostir við verðtryggð lán, þegar staðreyndin er sú að þau eru einfaldlega ávísun á gjaldþrot.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2016 kl. 13:55

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Guðmundur, þetta er nákvæmlega málið. Hver milljón sem greitt er af er um 7.000 kr. niðurgreiðsla á höfuðstól m.v 25 ára lán. Þessi tala er látin vera föst í jöfnunni en vaxtahluti lánsins leggst við höfuðstólinn og útbýr í raun nýjan höfuðstól til vaxtareiknings.

Þetta þýðir í raun að vaxtastigið er á álíka plani eins og ég og þú séum að taka yfirdráttarlán til að kaupa þak yfir höfuðið. Munurinn á eðli þessara lána er svart og hvítt, annað með veði í húsnæði hitt veðlaust.

Auðvitað er þetta algerlega út úr öllu korti. Smálán ehf. hvað? Stórlán í boði lífeyrissjóða og ríkisins... það er málið.

Sindri Karl Sigurðsson, 22.1.2016 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband