Fimmtudagur, 21. janúar 2016
Bótafólkið, Marx og kvótinn á lífsgæði
Karl Marx, samtíðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta, kenndi að yfirbyggingin sé fall af skipulagi framleiðslunnar. Ráðandi hugmyndir í hverju samfélagi séu afleiðingar af valdahlutföllum í efnahagskerfinu.
Á dögum Jóns Sigurðssonar réðu bændur efnahagskerfinu og mótuðu ráðandi hugmyndir. Eftir lýðveldisstofnun og útfærslu landhelginnar urðu útgerðarmenn öflugir og létu eftir því til sín taka í þjóðfélagsmálum.
Síðasti þriðjungur síðustu aldar skóp aðstöðu í efnahgaskerfinu fyrir tvo nýja hópa, bótafólkið og starfsfólk stóriðju.
Bótafólkinu óx fiskur um hrygg á tímum útrásar enda hrundu brauðmolar af nægtarborði auðmanna til bótafólksins, sem annars lifir einkum á opinberum styrkjum. Bótafólkið er áberandi í þjóðfélagsumræðunni og vill fá valdastöðu enda með framlag til þjóðarframleiðslunnar, eins og rithöfundur benti á nýverið.
Bótafólkið herjar á starfsfólk stóriðju með því að segja þau störf andstæð hagsmunum Íslands og þó sérstaklega íslenskrar náttúru. Skeleggur talsmaður starfsmanna stóriðju las bótafólkinu pistilinn í bloggfærslu. Óðara fékk hann yfir sig vammir og skammir.
Marxísk greining á valdastöðu bótafólksins annars vegar og hins vegar starfsmanna stóriðju er kristaltær: forræðið er allt þeirra síðarnefndu.
Bótafólkið er á hinn bóginn tunguliprara og stendur öðrum hópum samfélagsins framar í textaframleiðslu. Bótafólkið telur sig í krafti stöðu sinnar í fjölmiðlun geta skenkt öðrum hópum lífsgæðum og mótað ráðandi hugmyndir um hvert þjóðin skuli stefna.
Marx gat vitanlega ekki séð fyrir áhrif bloggheima á valdahlutföllin í samfélaginu.
Athugasemdir
Þessi greining sleppir algerlega margra tuga milljarða beinu framlagi skapandi greina til þjóðarbúsins og í pistlinum er gert er ráð fyrir að fólkið sem skapar þessi störf sé ölmusufólk og afætur.
Hef ekki í háa herrans tíð séð eins gersamlega forneskjulegt sjónarmið enda vitnað í Karl Marx og greiningu hans á efnahaglífi hans tíma.
Alveg er sleppt mörg hundruð milljarða króna beinu gjaldeyrisframlagi ferðaþjónustunnar í þjóðarbúið, þar sem hugvit og þekking, svo sem hjá leiðsögufólki og skipuleggjendum skapar auðinn.
Allt skal það fólk sem skapar auð beint og óbeint með hugverkum sínum afgreitt sem "bótafólk."
Ómar Ragnarsson, 21.1.2016 kl. 10:38
Ómar, ég vísa í færslu Guðmundar Andra Thorssonar þar sem hann tíundar framlag bótafólks til landsframleiðslunnar.
,,Bótafólk" er hvorki betra né verra orð en ,,kvótakall" , ,,stóriðjusinni" og önnur sambærileg sem notuð eru í umræðunni til að lýsa hópum fólks og afstöðu þeirra.
Páll Vilhjálmsson, 21.1.2016 kl. 13:42
Ómar virðist halda því fram að skapandi greinar (er þetta Oxymoron?) muni engu skila nema að nóg verði af bótafólki.
Er ekki fullt af skapandi fólki að skapa hluti og selja, án aðstoðar ríkisins?
Steinarr Kr. , 21.1.2016 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.