Sunnudagur, 3. janúar 2016
Guð í pólitík er ávísun á blóðbað
Guð Múhameðs spámanns leikur lausum hala í miðausturlöndum. Fyrir 500 árum tröllreið kristna guðsútgáfan Evrópu með tilheyrandi blóðsúthellingum, sem náðu hámarki í 30 ára stríðinu milli kaþólikka og mótmælenda.
Í miðausturlöndum skiptast múslímar í tvær meginfylkingar, súnna og sjíta. Forysturíki súnna er Sádí-Arabía en Íran er helsta veldi sjíta.
Sádí-Arabía glímir við innanlandsvanda. Nýr konungur er valtur í sessi og þverrandi olíuauður veldur efnahagsólgu. Þýskur sérfræðingur segir aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimr nauðsynlega fyrir innanlandsfriðinn. Yfirvöld í Riyad verði að sýna sömu hörkuna gagnvart sjítum og sýnd er gagnvart hryðjuverkamönnum Ríkis íslam - en þeir eru súnnar.
Íranar og alþjóðasamfélagið yfirleitt er ekki skilningsríkt á nauðsyn aftökunnar á al-Nimir fyrir innanlandsfrið í Sádí-Arabíu. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Sáda er almennt viðurkennt að helsta uppspretta öfgamanna Ríkis íslam er wahabismi, sem er ríkistrú Sáda. Öfgamenn Ríkis íslam herja á sjíta innan landamæra Sádi-Arabíu. Þótt stjórnvöld þar handsami og taki af lífi öfgamenn eru þau grunuð um linkind gagnvart trúbræðrum sínum.
Guð mun ekki hefna al-Nimr, líkt og leiðtogi Írans hótar. Einhverjir, sem telja sig verkfæri guðs munu eflaust hefna sjítaklerksins. Þá mun aðrir koma og hefna hefndarinnar. Auðvitað í guðs nafni. Blóðbaðinu linnir ekki fyrr en múslímar verða ásáttir um nýja guðsmynd þar sem guð leikur ekki lausum hala í veraldlegum deilumálum.
Hótar guðlegri hefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Læk" frá mér á þennan pistil. Á 20. öld fylltu hins vegar stjórnmálalegar trúarsetningar kommúnisma, kapítalisma. fasisma og lýðræðis upp í það tómarúm, sem brotthvarf trúarbragða skildi eftir sig.
Ómar Ragnarsson, 3.1.2016 kl. 13:33
Trúarbrögð hverfa ekki,þótt sjálfsbirgisháttur mannsins hafni þeim.
Helga Kristjánsdóttir, 3.1.2016 kl. 14:41
Hefnd og aftökur eiga ekkert skylt við Guð almáttugan, heldur er hvorutveggja hreinræktuð geðveiki og villimennska.
Stórfurðulegt að einhver telji slíkar villimennsku-aftökur og hefnd í lagi, og jafnvel nauðsynlegar fyrir frið? Hvernig getur fólk sem gengur laust, tjáð sig opinberlega með slíkum hætti, án þess að vera lagt inn á viðeigandi heilbrigðisstofnum?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.1.2016 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.