Sunnudagur, 20. desember 2015
Vonska, völd og stöðugleiki
Völd eru yfirráð einhverra yfir einhverjum. Lögmæt völd eru þar sem þeir valdbeittu viðurkenna stöðu sína. Viðurkenningin kemur fram í öðru tveggja, að viðvarandi valdhöfum (einvöldum konungum, einræðisherrum eða valdaflokkum)sé leyft að fara sínu fram ómótmælt eða að samkomulag sé um hvernig valdaskipti fara fram, samanber lýðræðisfyrirkomulag vestrænna ríkja.
Viðvarandi valdhafar tíðkast í öllum ríkjum nema lýðræðisríkjum. Sum ríki, t.d. Rússland, eru á mörkunum. Sami valdhafinn, Pútín forseti, situr varanlega þrátt fyrir kosningar.
Í ríkjum araba sátu til skamms tíma viðvarandi valdhafar. Menn eins og Gadaffi í Líbýu, Assad í Sýrlandi og Hussein í Írak. Í nær öllum tilvikum viðvarandi valdhafa styðjast þeir við vonsku af einhverju tagi, s.s. kúgun, mannréttindabrotum og oft pyntingum og morðum.
Stöðugleiki er forsenda viðvarandi valdhafa. Án stöðugleika eiga viðvarandi valdhafar á hættu að missa völdin. Stöðugleikinn er keyptur verði vonskunnar.
Stöðugleiki með vonsku er skárri kostur en óstöðugleiki og enn meiri vonska, eins og raunin hefur orðið á í Líbýu, Írak og Sýrlandi eftir að Bandaríkin og vestræn ríki ákváðu að steypa af stóli viðvarandi valdhöfum í þessum ríkjum.
Hilary Clinton, forsetaframbjóðandi og fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, réttlætti í sjónvarpskappræðum afsetningu Gadaffi í Líbýu með þeim orðum að hann hefði framið grimmdarverk á eigin fólki.
Clinton þykir ekki haukur í utanríkismálum heldur hófsöm. Hún telst ekki heimsk, fremur skarpgreind. Engu að síður æpir nýliðin saga framan í hana þessari óhrekjanlegu staðreynd: viðvarandi valdhafar stjórna með vonsku. Valkosturinn við þá er óstöðugleiki og enn meiri vonska.
Sanders bað Clinton afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.