Sunnudagur, 11. október 2015
Sósíalismi og frjálshyggja; siðagildi trompa fjármagn
Sósíalismi og frjálshyggja háðu stærstu orusturnar um skipulag efnahagskerfisins. Sósíalisminn boðaði ríkiseign en frjálshyggjan einkaeign. Frjálshyggjan vann með þeim fyrirvara að hún féllst á velferðarríkið, sem í grunninn er sósíalísk hugmynd.
Um síðustu aldamót voru tveir stjórnmálamenn kenndir við ,,þriðju leiðina", sem samþættaði mildar útgáfur af frjálshyggju og sósíalisma. Tony Blair í Bretlandi og Bill Clinton í Bandaríkjunum áttu að reka smiðshöggið á deilur vinstri- og hægrimanna um afstöðuna til fjármagnsins.
Kosning Jeremy Corbyn til formennsku í breska Verkamannaflokknum sýnir svo ekki verður um villst að þriðja leiðin er búin að vera. Corbyn er sósíalisti af gamla skólanum, vill ríkisvæða samgöngur og skattleggja ríkidæmi til að fjármagna millifærslur til þeirra efnaminni.
Í Bandaríkjunum gerir Bernie Sanders það gott í upptakti að forskosningum demókrata. Ian Buruma segir Sanders hófsaman í samanburði við Corbyn.
Fríverslunarsamningar milli Bandaríkjanna og Evrópu, TiPP, eru dæmigert afkvæmi þriðju leiðarinnar í stjórnmálum. Um helgina mættu 150 þúsund manns í Berlín til að mótmæla TIPP. Rökin fyrir fríverslunarsamningnum eru hagvöxtur. Rökin á móti eru að fjármagn eigi ekki að stýra lífi okkar.
Einn af hornsteinum þriðju leiðarinnar var almæli hagfræðinnar, að hagfræðin væri komin með endanleg svör um hvernig hagstjórn skyldi háttað. Kreppan 2008 og viðbrögðin við henni, peningaprentun seðlabanka sérstaklega, valda uppnámi meðal hagfræðinga er tefla fram ólíkum sannindum, sem eru þá ekkert annað en eitt hagfræðiálit gegn öðru.
Pólitík almennt er óðum að breytast frá útfærslupælingum á markaðshagstjórn yfir í deilur um siðagildi. Stórar spurningar sem vestræn menning stendur frammi fyrir, t.d. um afstöðuna til flóttamanna frá mið-austurlöndum, verður ekki svarað með vísun í hagspeki.
Þingmaður á alþingi Íslendinga, Róbert Marshall, reynir að fá umræðuna um flóttmenn til að snúast um krónur og aura. Í þýska stórblaðinu FAZ er fréttafyrirsögn Lygin á tímum flóttamanna. Fréttin fjallar um hvernig reynt er að nota hagfræðiálit til að styðja kröfuna um opin landamæri fyrir flóttamenn. Leiðandi hagfræðingur á sviðinu, Jorge Borjas, varar við misnotkun hagtalna í þágu flóttamannastefnu ,,góða fólksins."
Stjórnmál á forsendum siðagilda eru hatrammari en pólitík um hagstjórn. Siðagildi varða dýpstu sannfæringu fólks, sem gerir allar málamiðlanir erfiðari.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.