Fimmtudagur, 10. september 2015
Þjóðaratkvæðagreiðslur gera landið stjórnlaust
Landinu verður ekki stjórnað með þjóðaratkvæðagreiðslum. Atkvæðagreiðslur eru einfaldar en stjórnsýsla flókin. Í atkvæðagreiðslum er gert upp á milli tveggja eða fleiri valkosta. Um leið og búið er að velja einn er komin forsenda til að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þann veruleika sem blasir við eftir þá fyrri.
Þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu álitamál myndi auka ófriðinn í samfélaginu. Þeir sem tapa einni atkvæðagreiðslu munu óðara krefjast nýrrar, ef ekki um nákvæmlega saman málið, þá um einhvern langsóttan anga þess.
Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna hrinda sér ekki sjálfar í framkvæmd. Í skjóli upplausnar, sem þjóðaratkvæðagreiðslum fylgir, munu hverskyns kújónar koma með sínar lausnir á því hvernig beri að útfæra niðurstöður atkvæðagreiðslna.
Það er ekki tilviljun að fulltrúalýðræði er ráðandi fyrirkomulag í vestrænum ríkjum. Lýðræði í Vestur-Evrópu átti undir högg að sækja á fyrri hluta síðustu aldar. Ýmsir popúlistar töldu sig hafa fundið upp betri aðferðir en fulltrúalýðræði til að ráða málum til lykta. Popúlisminn og öfgahreyfingar héldust hönd í hönd að grafa undan lýðræðinu.
Ísland fór á mis við lexíu Vestur-Evrópu á fyrri hluta síðustu aldar. Líklega er það helsta ástæðan fyrir því að Píratar, sem eru alþjóðleg stjórnmálahreyfing, nær hvergi fylgi nema einmitt á Íslandi.
Of fráleitt til að móðgast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er margt til í þessari fyrirsögn hjá þér!
Það þarf helst alltaf að haldast í hendur; vilji æðsta valdsins og vilji múgsins.
Hvað er forseta-kosning annað en þjóðaratkvæðagreiðsla?
Kostir franska kosninga-kerfisins:
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1792985/
Jón Þórhallsson, 10.9.2015 kl. 16:48
...enda er Sviss stjórnlaust land, ekki satt...? https://en.wikipedia.org/wiki/Swiss_referendums,_2014
Haraldur Rafn Ingvason, 10.9.2015 kl. 17:28
Menn ættu að skoða Californiu, en þeir eru með afbrigði af þjóðaratkvæðagreiðslum, en þar geta kújónar komið alls konar málum á atkvæðaseðla sem síðan binda ríkið, aðallega til útgjalda. Fólk er farið að flýja norðureftir, sem aftur er að búa til vandamál þar. California er að verða gjaldþrota og er næstum stjórnlaus út af þessu.
Steinarr Kr. , 10.9.2015 kl. 22:05
Til eru nágrannalönd okkar þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru leyfðar án þess að nokkurt þeirra geti talist þjást af glundroða og stjórnleysi.
Er nokkurt það land til í Evrópu þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur valda upplausn?
Í Sviss eru reglurnar um þjóðaratkvæðagreiðslurnar svo strangar, að það tekur að meðaltali nokkur misseri eða ár að koma þeim á koppinn.
Þar hefur verið stöðugasta stjórnarfar sem um getur í álfunni.
Hvers konar bölsýni er þetta eiginlega?
Ómar Ragnarsson, 10.9.2015 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.