Eltipólitík Samfylkingar

Frá stofnun stundar Samfylkingin eltingarleik við tíðarandann. Markmiðið er að detta inn í tískuna til að fá þar fylgi og í framhaldi völd í samfélaginu. Samfylkingin var beinlínis stofnuð til að verða valdaflokkur, ólíkt Vinstri grænum sem voru stofnaðir um málefni.

Allir stjórnmálaflokkar stefna að völdum, út á það gengur pólitík. Það sem aðgreinir Samfylkinguna frá öðrum flokkum er að völdin eru valdanna vegna hjá Samfylkingu en ekki málefna eða hagsmuna.

Talsmenn Samfylkingar stæra sig stundum af því að hefja sig yfir hagsmuni, starfa í þágu almannahags en ekki sérhagsmuna. Það stenst ekki. Stærsta málið sem Samfylkingin gerði að sínu er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þjóðfélagshópurinn sem græðir á aðild er afmarkaður hópur sérfræðinga og háskólaborgara sem kæmist inn á atvinnumarkaðinn í Brussel annars vegar og hins vegar gósenlendur styrkjakerfa ESB. Allur þorri almennings myndi tapa á aðild að Evrópusambandinu.

Eltipólitíkin gerði Samfylkinguna að ESB-flokki. Forysta flokksins um aldamótin, þegar flokkurinn var nýstofnaður, sannfærðist um að ESB væri í tísku. Forystunni var vorkunn. Bloggarar, fjölmiðlamenn, sérfræðingar og háskólakennarar, svokallaðar kjaftastéttir, voru um aldamótin yfirmáta hlynnt ESB enda sambandið að kynna til sögunnar glænýja afurð, evruna.

Evran skyldi breyta Evrópusambandinu úr milliríkjasamstarfi fullvalda þjóða í sambandsríki Evrópu. Íslensku kjaftastéttirnar vildu með í þá för enda dagpeningarnir fyrir endalausr Brusselferðir drjúg launauppbót, að ekki sé talað um ferðapunktana sem safnast í vinnunni og nota má í sumarfrí fjölskyldunnar.

Evran reyndist mýrarljós sem skilaði almenningi ekki lofaðri velsæld heldur kreppu og atvinnuleysi.

Þegar Samfylkingin komst óvænt til æðstu valda, í kjölfar hrunsins, var flokkurinn fangi eltistjórnmálanna og tilneyddur að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin bjó hvorki að tengingu við meginhagsmuni í samfélaginu né flokksmenningu sem gat forðað flokknum frá vanhugsuðum Brusselleiðangri. Valdaflokkurinn var komin með völd og nú skyldi nota þau, skítt með yfirvegun og greiningu á aðstæðum.

Samfylkingin nær ekki vopnum sínum fyrr en hún gerir upp við mistök fortíðar. Líklega er það uppgjör flokknum ofviða. 


mbl.is Samfylkingin ekki náð fótfestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð greining á fyribærinu 

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.7.2015 kl. 13:39

2 Smámynd: Viggó Jörgensson

Þessi Evrópuleiðangur Samfylkingarinnar á sér lengri sögu.  Eða frá dögum dr. Gylfa Þ. Gíslasonar formanns Alþýðuflokksins og viðskiptaráðherra sem stóð fyrir því að við gengum í EFTA fyrir meira en 40 árum. 

Viggó Jörgensson, 12.7.2015 kl. 19:04

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

EFTA var verslunarbandalag sjálfstæðra ríkja. EES er á svipuðum nótum en ESB er meira ríkjabandalag þar sem aðildarríkin missa að miklu leiti sjálfstæði sitt. T.d. er ESB ríkjum óheimilt að gera sjálfstæða verslunarsamninga við ríki utan sambandsins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.7.2015 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband