Fimmtudagur, 9. júlí 2015
Kratar eru deyjandi stjórnmálategund
Kratar gera ekki gott mót í Grikklands-krísunni. Þýskir kratar í stjórn Merkel standa harðir gegn afslætti handa Grikkjum. Franskir kratar með Hollande forseta í fararbroddi styðja áframhaldandi veru Grikkja í evru-samstarfinu.
Kratar eru alþjóðlegir að upplagi. Þegar systurflokkar taka hvor sína stefnuna í stórmáli er alþjóðavíddin komin undir járnhæl innanlandshagsmuna. Evrópskir krataflokkar eru á flótta frá stærstu hugsjón sinni, Evrópusambandinu, vegna þess að allur almenningur er búinn að gefast upp á hugmyndinni um Stór-Evrópu með Brussel sem höfuðborg.
Velferðarríkið, annar hornsteinn kratismans, sækir ekki lengur pólitíska næringu til verkamannaflokka. Danski þjóðarflokkurinn, andstæðingur ESB og gagnrýninn á innflytjendur en hlynntur velferðarkerfinu, kom fleiri ófaglærðum á þing en Verkamannaflokkurinn. Breska verkamannaflokknum var hafnað í síðustu kosningum. Hann átti ekki svör við spurningum bresku þjóðarinnar um innflytjendamál, afstöðunnar til ESB og efnahagsmál.
Samfylkingin er krataflokkur Íslands. Eftir ömurlega kosningu 2013, þar sem flokkurinn fékk 12,9% fylgi, er flokkurinn kominn í 9,3% fylgi í könnunum og minni en Vinstri grænir.
Samfylkingin gerði sig að ESB-flokki Íslands og geldur þess að umsóknin frá 16. júlí 2009 var klúður á klúður ofan. Til að bæta gráu ofan á svart er enginn endir á hörmungarfréttum af Evrópusambandinu. Eyjólfur í Brusel er ekkert á leiðinni að hressast næstu árin. Einsmálsflokkurinn á Íslandi gerir ekki annað en að tapa ESB-tengingunni.
Samfylkingin er flokkur háskólaborgara með næmni fyrir veruleikanum á borð við prófessorana sem sögðu að Ísland yrði Kúba norðursins ef við samþykktum ekki Icesave-klyfjarnar. (Prófið að slá upp prófessorunum Þórólfi Matthíassyni, Þorvaldi Gylfasyni og Gylfa Magnússyni og Icesave).
Samfylkingin er ekki með boðskap fyrir almenning og enga aðra hugsjón en Evrópusambandið. Kratisminn stendur höllum fæti á alþjóðavísu en er í útrýmingarhættu á Íslandi.
Athugasemdir
Framsóknarflokkurinn mælist einnig með minna fylgi en Vinstri grænir. Er Framsóknarflokkurinn einnig í útrýmingarhættu?
Wilhelm Emilsson, 9.7.2015 kl. 16:42
Við skulum aldrei gleyma að þessi flokkur hefur það eina stefnumál að svifta okkur sjálfstæði.
Koma okkur í ríkjasamband sem á að verða að einni stórþjóð á næstu árum.
Þar sem vandamálin eru það margbrotin og vandræðaleg að ef upp koma flokkar sem gagnrýna.
ja þá fer allt úr límingunum.
Snorri Hansson, 10.7.2015 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.