Sunnudagur, 24. maí 2015
Dagdraumar í leðurbuxum - ristruflanir í stjórnmálum
Miðaldra karlar í stjórnmálum glíma við tvíþættan vanda. Æskuþokkinn er farinn en virðingin sem fylgir opinberum embættum skilar sér ekki sökum þess hve pólitíkin er alræmd nú um stundir.
Tvö dæmi úr liðinni viku: fjármálaráðherra er sakaður um geðvonsku og forsætisráðherra um geðveiki. Vinstribloggherinn beinir spjótum sínum að ríkisstjórninni en dregur öll stjórnmál niður í svaðið.
Dagur Bergþóruson Eggertsson borgarstjóri skrifar sig í leðurbuxur með tísti á Júróvisjónkveldi. Borgarstjóri mætir kynþokkafullur og ljósmyndavænn á þriðjudag í vinnuna og slær nokkrar pólitískar keilur.
Það er á huldu hvort leður sé redding stjórnmálamanna í lágu rykti. Nýjar rannsóknir á sviði mannlegrar reisnar vísa í aðra átt. Það kemur á daginn að kaffibolli eða tveir bæta atgervi manna til þjónustu við lífsmáttinn. Þeir sem eru eldri en tvævetur vita að með kaffi kemur spjall.
Niðurstaða: leður er fyrir dagdrauma. Stjórnmálamenn ættu að fá sér kaffibolla og ræða málin. Þeir myndu eflast að dug og þreki, bæði inn á við og á opinberum vettvangi. Kökusneið með kaffinu myndi ekki skemma.
Ætlar að standa við stóru orðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.