Verkföll ráðþrota verkalýðsforystu

Í gegnum lífeyrissjóðina er verkalýðsforystan með ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Verkalýðsforystan er hvorttveggja með afl og upplýsingar til að ákveða hvaða laun fyrirtækin geta borgað - og hvernig launakökunni skuli skipt.

Verkalýðsforystan nefnir ekki stöðu fyrirtækja og hvað þau geta borgað. Formaður VR kemur í sjónvarpsviðtal og segir að launafólk vilji fá sömu launahækkun og læknar.

Læknar eru óvart í vinnu hjá ríkinu og skipta nákvæmlega engu í afkomu fyrirtækja.

Verkalýðsforystan talar eins og hér sé sósíalískt samfélag þar sem ríkið ákveður öll laun í landinu.

Ríkið rekur ekki fyrirtæki landsins. Verkalýðshreyfingin sjálf er miklu nær því að reka fyrirtækin í gegnum lífeyrissjóðina.

Þegar verkalýðsforystan kann ekki og getur ekki verður almannavaldið að grípa í taumana og koma skikki á hlutina.

Löggjöf sem tekur verkfallsréttinum og misbeitinu hans annars vegar og hins vegar forræði verkalýðsforystunnar á lífeyrissjóðum ætti að kynna á alþingi.

Verkalýðsforystan vaknar ekki til lífsins fyrr en hagsmunum hennar er ógnað. Og við höfum almannavald til að vekja þennan forréttindahóp til vitundar um ábyrgð sína.


mbl.is Verkföllin bíta marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú segir verkalýðsforustuna ráðlausa Páll. Að hennar eina ráð séu verkföll. Þú hefur þá væntanlega einhver önnur ráð til að miðla til verkalýðsins, svo hann getu varið kjör sín?!

Lífeyrissjóðir. Þú veist jafn vel og hver meðalupplýstur maður hér á Íslandi að völd verkalýðsforustunnar innan lífeyrissjóðana eru frekar lítil. Þar inni dóminera atvinnurekendur í krafti undarlegra reglna um skipan stjórna sjóðanna. Þegar komið er að því að sjóðirnir láti til sín taka innan stjórna þeirra fyrirtækja sem þeir eiga aðild að, er vald verkalýðsins enn minna. Hitt er svo aftur vel gagnrýnivert að lífeyrissjóðirnir skulu vera með svo stórar eignir í fyrirtækjum landsins. Maður hefði ætlað að tapið við bankahrunið væri víti til varnaðar. En aftur komum við þar að valdi verkalýðsins innan stjórnar sjóðanna. Aftur komum við að því hversu dómerandi atvinnurekendur eru í sjóðunum. Þörfin á að endurbyggja lífeyriskerfið ætti öllum að vera ljóst, en það er önnur umræða.

En nóg um líeyrissjóðina og aftur að verkföllunum sem skollin eru á og eru að skella á.

Kjör almennings. Það vita allir sem þurfa að sætta sig við að þyggja laun samkvæmt kjarasamningum hver staða þeirra er. Það skiptir litlu þó einhverjir hagfræðingar, stjórnmálamenn, atvinnurekendur eða jafnvel blaðamenn segi að fólk hafi það bara ágætt. Fyrir þann sem verður að ákveða við hver mánaðamót hvaða reikningar verði að fara í bið, svo launuin dugi til matarkaupa út mánuðinn, eru slíkar fullyrðingar marklausar.

"Þjóðarsáttin". Á jólaföstunni 2013 var gerður kjarasamningur milli SGS og SA. Launahækkunin sem fólk fékk var til skammar, en í krafti þess að þetta væri upphaf af einskonar þjóðarsátt, náðist þó að fá þennan samning samþykktan. Þó ekki fyrr en að loknum tvennum kosningum hjá flestum stéttarfélögum, enda töldu félagar þeirra að sú sátt hefði kannski átt að koma ofanfrá, ekki neðanfrá. A.m.k. töldu margir að að þessari sátt hefði átt að kalla alla, ekki bara þá sem á lægstu laununum eru.

Framhald "þjóðarsáttar". Varla var blekið þornað á þessum samning þegar SA hóf að semja við aðra um mun hærri launahækkanir. Ríkið fylgdi síðan á eftir og hámarki fáviskunnar var svo náð með læknasamningunum. Áður en þeim var náð hafði launavísitalan þó hækkað um 6%, meðan félagar SGS fengu 3,8%, að vísu fengu þeir sem á allra lægstu laununum voru örlítið meira. Þetta sannar að fram til læknasamningsins voru laun í landinu búin að hækka verulega, langt umfram það sem verkalýðurin þarf að búa við. Þjóðarsáttin náði einungis til þeirra sem lægst eru settir í þjóðfélaginu.

Launakröfur. Það er mikið látið með prósentutölur þegar kröfur launafólks eru til umræðu. Þær láta líka betur í eyrum. En hver er raunverulega sú launahækkun sem SGS fer fram á? Jú, að lægstu laun verði 300.000kr/mán. brúttó. Jafnvel þó gengið yrði að þessum kröfum að fullu, munu margir enn þurfa að velja hvaða reikninga skuli borga, svo hægt sé að fæða fjölskylduna út mánuðinn. Enn vantar nokkuð uppá að hægt sé að lifa af laununum, þ.e. miðað við að búið sé í tjaldi. Ef viðkomandi fjölskyldufaðir vill hafa þak yfir börn sín, er ljóst að matur verður af verulegum skorti. En þar sem laun verkafólks eru svo arfalág, þá verður þessi smánarkrafa auðvitað stór þegar henni er breytt í prósentur.

Vandinn. Það er ljóst að margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir þessum raunverulega vanda, enda flestir þeirra sem tjá sig um hann gjörsamlega ókunnir honum og vilja ekki sjá staðreyndirnar. Kannski er stæðsti vandinn einmitt þar. Menn fabúlera um hluti sem þeir ekki þekkja. En vandinn er samt sem áður til staðar, hvað sem öll meðaltöl segja.

Fyrirtækin. Því er haldið fram að fyrirtækin í landinu geti ekki greitt hærri laun og alls ekki mannsæmandi. Þar hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu verið nefnd sérstaklega. Það er spurning hvort fyrirtæki, þar sem rekstrarforenda er lág laun, eigi rétt á sér. Hvort slík fyrirtæki eigi yfirleitt tilverurétt. Verkefnin sem þau sinna fara ekkert né vinnan við þau. Önnur fyrirtæki, betur rekin, eða aðrir aðilar gætu tekið yfir þessi verkefni. Hitt er alvarlegra, ef heil atvinnustétt, sem að auki er talin vera eina af undirstöðu atvinnugreinum landsins, byggir sinn grundvöll á lágum launum. Þá er varla hægt að tala um þá atvinnugrein sem einhverja undirstöðu.

Lausnir. Til að leysa þann vanda sem fátækragildran hefur sett stórann hluta launafólks í þarf auðvitað að viðurkenna hann. Að viðurkenna að stór hluti lanunafólks býr við laun sem eru langt frá því að duga til framfærslu. Að viðurkenna að hluti fyrirtækja landsins byggir á þeirri launastefnu. Þegar þetta fæst viðurkennt er hægt að ræða hlutina á réttum grunni. Við erum svo heppin hér á landi að búa við mikinn auð, flest fyrirtæki eru vel rekin og skila góðum hagnaði og flest sem ætti að gera lausn vandans aðveldann. En fyrst þarf að viðurkenna hann og síðan vilja til úrbóta.

Meðan sá vilji er ekki til staðar, meðan atvinnurekendur hafna allri umræðu, hefur launafólk einungis eitt vopn, verkfallsvopnið.

Aðrir hópar. Aldrei hef ég verið ósáttur við að einhverjir geti bætt sín kjör. Vissulega sló mann nokkuð þegar hópar sem eru á margföldum launum verkafólks fengu hækkanir sem voru hærri en mánaðarlaun verkamanns. En þetta er réttlætt með menntun. Ekki ætla ég að gerast dómari um hvernig meta skuli menntun til launa, þó hugsanlega megi finna einhvern mælikvarða á slíkt. Hitt er ljóst, að verkfallsboðun BHM og fleiri menntahópa mun ekki liðka fyrir kjarabótum verkamannsins, þvert á móti. VR, sem nú stefna í verkfall eiga heima með verkamanninum, enda flest launafólk innan þess á svipuðum hörmungarkjörum.

Verkföll. Eins og áður segir er eina vopn launþegans verkfall. Til að því vopni sé beytt þarf mikið að ganga á og ástæðan að vera ærin. Enginn fer í verkfall nema af nauð, þegar allt annað hefur verið reynt. SGS gerði tilraun til að fá SA að samningsborðinu, með engum árangri. Þá var deilunni vísað til sáttasemjara og enn varð enginn árangur, fulltrúar SA neituðu að tala. Því var það af nauð sem verkalýðsforustan boðaði til kosningu um verkfall. Það eru nefnilega félagar stéttafélaganna sem hafa það vald að boða verkfall, einir. Forustan ræður þar litlu um. Og kosningin fór fram. Rétt nærri 50% félagsmanna kaus og er það sennilega íslandsmet í þáttöku í starfi stéttarfélaga. Niðurstaðan var skýr, langt yfir 90% félagsmanna kaus verkfall. Að halda því fram að ákvörðun um verkföll liggi hjá verkalýðsforustunni er barnaskapur.

Án verkfallsvopnsins eru launþegar vopnlausir. Þá ráða atvinnurekendur lögum og lofum. Kjarasamningar væru úr sögunni, enda atvinnurekandnum í lófa lagið að hafna öllum slíkum viðræðum. Það væri upptaka lénsskipulags og nánast þrælahalds. Láglaunasvæði eins og Indland og fleiri lönd í Asíu yrði þá hálaunalönd, miðað við Ísland. 

Ég hvet þig Páll, til að kynna þér kjör verkafólks í landinu, raunveruleg kjör. Þá gætir þú ritað um þetta málefni af sömu þekkingu og skynsemi og flest þín skrif eru. Það er engin ástæða fyrir svona stílbrot hjá þér.

Gunnar Heiðarsson, 28.4.2015 kl. 09:32

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gunnar þetta er mikil grein hjá þér. Þú veist að engin í neðstu þrepum kemur af stað verkföllum heldur er þetta matað í fólkið ofanfrá. Þetta gerir Verkalýðsforystan og það veist þú Gunnar.

Valdimar Samúelsson, 28.4.2015 kl. 10:31

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Valdimar.

Hver það er sem "kemur af stað verkföllum" má endalaust deila. Verkfall verður ekki ef samningar nást og því sá aðilinn sem ekki vill semja sem á sök hverju sinni. Nú er það viljaleysi til samninga af hálfu atvinnurekenda sem "kemur af stað verkföllum".

Í hvaða þrepum þeir eru sem kjósa verkföll má einnig deila. Þeir sem eru í neðstu þrepunum hafa oftast mesta þörf fyrir leiðréttingu og því kannski þeirra vilji til að sækja sinn rétt með verkfalli mestur. Það er einmitt sá hópur sem kann að lifa við sult og því býtur verkfall síður á honum. Þeir sem þekkja sögu verkalýðsbaráttu gegnum tíðina, vita þetta.

Hins vegar er ljóst að nú fór atkvæðagreiðslan á þann veg að nánast allir sem kusu gáfu sitt leyfi til verkfalls og því vart hægt að tala um einhver þrep þar. 

Ef þú ert hins vegar að gefa það í skyn að þeir sem eru í neðstu þrepum launastigans hafi ekki til að bera næga visku til að ákveða sjálfir sín mál og því séu þeir "mataðir" af verkalýðsforustunni, þá eru á villigötum. Slíkri niðurlægingu er erfitt að svara, þó maður hugsi sitt.

Gunnar Heiðarsson, 28.4.2015 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband