Sunnudagur, 26. apríl 2015
Grikklandsmánudagurinn nálgast; ásakanir um and-evrópsku
Grikkland skrapar botninn í leit að evrum að borga ríkisskuldir sem landið stendur ekki undir. Á fundi fjármálaráðherra evru-ríkja svaraði Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, spurningu fréttamanns um hvort áætlun væri til um Grexit, þ.e. að Grikkland færi úr evru-samstarfi: ,,ef ábyrgur aðili myndi segja já, slík áætlun væri til, þá vitum hvað myndi gerast," sagði sá þýski og vísaði til viðbragða markaða. Hann bætti við: ,,ef sá ábyrgi segði nei, þá vitum við að þið mynduð ekki trúa honum."
Á fundi fjármálaráðherrana á föstudag bar minna á viðtengingarhætti. Gríski fjármálaráðherrann, Varoufakis, var sakaður um kunnáttuleysi, að sólunda dýrmætum tíma og blekkingar.
Blaðamenn Die Welt segja niðurstöðu fjármálaráðherra evru-ríkjanna að unnið verði að Grexit. Samhliða útgönguáætlun fyrir Grikkland er vilji til að styrkja miðstýringu evru-svæðisins og koma í veg fyrir annað grískt ástand.
Áætlanir um aukna miðstýringu steyta á því skeri að enginn pólitískur vilji er í evru-ríkjunum að auka sameiginlega ábyrgð, t.d. með einum atvinnuleysissjóði fyrir allt evru-svæðið eða með útgáfu sameiginlegra evru-skuldabréfa.
Miðstýrt evru-fjármálaráðuneyti í Brussel, sem eingöngu væri með refsivald en ekki fjárráð til að miðla fjármunum á milli evru-ríkja, væri í reynd skattaeftirlit en ekki fjármálaráðuneyti.
Evrópusambandið stendur frammi fyrir djúpri gjá milli veruleika veiks evru-samstarfs og óskhyggju um að evru-ríkin höguðu sér eins og heildstætt þjóðríki.
Fjármálaráðherra Slóveníu spurði þann gríska Varoufakis á fundinum á föstudag hvort ekki skyldi unnið að varaáætlun, ef Grikkland yrði gjaldþrota. Svar Varoufakis var að ásaka slóvenska starfsbróður sinn um að vera ,,and-evrópskur."
Þegar raunsæi er orðið ,,and-evrópskt" er illa komið fyrir Evrópusambandinu.
Ganga í sjóði opinberra stofnana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.