Þriðjudagur, 21. apríl 2015
Sagan lögfest; landið á milli kommúnisma og nasisma
Menningarráðneytið útbýr lög sem varðveita minningu þeirra gáfu líf sitt þjóðfrelsinu. Í opinberri tilkynningu er lagapakkinn í senn kenndur við afkommúnistavæðingu og sigur yfir nasistum.
Landið er Úkraína og lögin eiga að skjóta stoðum undir úkraínska þjóðerniskennd, sem liggur einhvers staðar á milli kommúnista og nasisma, samkvæmt útlistun menningarráðuneytisins.
Guardian fjallar um þessa lögfestingu sögunnar, sem m.a. felur í sér bann á kommúnískum og nasískum táknum. Ennfremur er bannað afneita ,,glæpsamlegu eðli kommúnistastjórnarinnar 1917-1991."
Sögulögfesting tekur til heita á sögulegum atburðum. Rússar nefna stríðið 1939 til 1945 stóra föðurlandsstríðið og tíðkaðist það heiti í Úkraínu á dögum kommúnistastjórnarinnar. En nú skal það heita seinni heimsstyrjöld, upp á evrópska vísu.
Lögboðin saga tíðkast almennt í alræðisríkjum kommúnisma og fasista. Vegferð Úkraínu sýnir inngróna aðferðafræði yfirvaldsins sem ákveður hvaða söguskoðun skuli gilda. Hugmyndir frönsku byltingarinnar eru ekki rótfastar þarna austur frá.
Úkraína er á milli áhrifasvæða Evrópusambandsins, en þar átti fasisminn upptök sín, og Rússlands þar sem kommúnisminn réð ríkjum þrjá fjórðu hluta síðustu aldar.
Lögin sem staðsetja Úkraínu milli öfganna skortir það sem brýn eftirspurn er eftir í Austur-Evrópu en lítið framboð: raunsæi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.