Stjórnmálamenning Samfylkingar ber dauðann í sér

Geðshræringar- og reiðistjórnmál voru innleidd af Samfylkingunni í byrjun aldar. Einkenni slíkra stjórnmála er hugarástand á kostnað málefna; upphrópun í stað rökræðu og yfirgangur fremur en málamiðlanir.

Í fjölmiðlamálinu 2004 stundaði Samfylkingin geðshræringar- og reiðistjórnmál. Flokkurinn tók saman við Baugsveldið að hnekkja tilraun ríkisvaldsins að setja fjölmiðlalög til að takamarka ofurvald Baugsmiðla í samfélagsumræðunni.

Í hruninu hrökk Samfylkingin aftur í tryllingsgírinn, svínbeygði m.a. Sjálfstæðisflokkinn að halda sérstakan landsfund um Evrópumál. Þegar það dugði ekki til efndi samfylkingarfólk til mótmæla og knúði fram afsögn ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, þar sem flokkurinn átti helmingsaðild.

Eftir hrun, í hreinu vinstristjórninni, fengu Vinstri grænir að kenna á geðshræringar- og reiðistjórnmálum Samfylkingar sem neitaði að mynda ríkisstjórn nema Vinstri grænir samþykktu, þvert á sína eigin stefnu, að senda aðildarumsókn til ESB.

Geðshræringar- og reiðistjórnmál Samfylkingar fengu sjálfstætt líf í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. og urðu til þess að sprengja samstöðuna; fylgi Samfylkingar hrapaði úr tæpum 30% árið 2009 í 12,9% fjórum árum síðar vegna innbyrðis deilna og ásakana um svik og svínarí í tengslum við stjórnarskrármálið, kvótamálið og skjaldborg heimilanna.

Samfylkingin lærði ekki pólitíska mannasiði eftir ósigurinn 2013. Forysta flokksins forhertist. Þannig kallaði varaformaður flokksins stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins ,,skeinipappír" í umræðum á alþingi.

Geðshræringin og reiðin étur Samfylkinguna upp að innan. Mótframboð gegn sitjandi formanni var ákveðið í geðvonskukasti þar sem engin málefni komu við sögu og séð var til þess að hvorki rökræða kæmist að né yfirvegun.

Eftir landsfund Samfylkingar er forysta flokksins í felum fyrir fjölmiðlum. Og það er absúrd staða fyrir stjórnmálaflokk.


mbl.is Umrótið gerir Samfylkingu erfitt fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband