Rússland er jafnmikil Evrópa og Þýskaland

Rússland stendur á milli asísku sléttunnar, sem rúmar Kína og Mongólíu, og útskaga evrasíuflekans sem myndar samfellt landflæmi frá Ermasundi til Kyrrahafs.

Þýskir herforingjar voru sannfærðir 1914 að tímabært væri að ráðast á Rússland áður en það yrði of sterkt fyrir þýska herinn. Þessi þýska sannfæring var veigamikill þáttur í upphafi fyrri heimsstyrjaldar.

Evrópusambandið ætlar sér Úkraínu en talar aldrei um aðild Rússlands að ESB. Rússland er til muna meira Evrópuland en t.d. Tyrkir sem ESB er búið að samþykkja sem umsóknarríki. Hvers vegna er ekki rætt um Rússa sem væntanlega ESB-þjóð?

Ástæðan er þessi: Rússland yrði langstærsta ríki Evrópusambandsins, bæði mælt í landflæmi og mannfjölda (145 milljónir).

Rússland er nánast frá náttúrunnar hendi óhæft til verða aðili að ESB enda myndu öflugustu þjóðirnar þar á bæ, Frakkland og Þýskaland, ekki samþykkja að verða hornkerlingar.

Verkefni Evrópusambandsins andspænis Rússum er að finna sambúðarform sem virkar. Fyrir Rússa virkar ekki sambúð sem byggir á því að ESB/Nato umkringi landið.

Bandaríkjamaðurinn J. J. Mearsheimer útskýrir skipulega og ítarlega í grein í Foreign Affairs hvernig Evrópusambandið lét bandarísk stjórnvöld móta utanríkisstefnu sína eftir fall Berlínarmúrsins.

Bandarísk stjórnvöld mótuðu sömu stefnu gagnvart Rússlandi og mistókst svo herfilega í Írak og Afganistan. Hugmyndin er að steypa þjóðir í sama mót sem verði næm á þarfir og hagsmuni Bandaríkjanna.

Evrópa lærði af nýlendusögu sinni að þjóðum verður ekki skikkað að vera svona eða hinsegin. Bandaríkin búa ekki að slíkum lærdómi.

Evrópusambandið vaknaði upp við vondan draum í Úkraínu og rær lífróður að koma í veg fyrir að vont versni með því að fá Bandaríkjamenn ofan af því að senda þangað vopn.

 


mbl.is Allt Vesturlöndum að kenna segir Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skeggi Skaftason

PV segir

Evrópusambandið ætlar sér Úkraínu 

Hvað meinarðu?? Að Evrópusambandið ætli sér að taka Úkraínu inn í sambandið? Er það ekki fyrst og fremst Úkraína sjálf sem ákveður það?  Eða þekkirðu dæmi þess að eitthvert land hafi verið innlimað inn í ESB gegn vilja meirihlutans í viðkomandi ríki?

En það er akkúrat það sem Rússland vill ekki. Rússland vill ekki leyfa Úkraínu að ákvarða sjálft sína framtíð og sín viðskiptatengsl.

Skeggi Skaftason, 9.2.2015 kl. 22:35

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Afhverju velta viðskiptatengsl þjóða og framtíð eins og Ukraínu,á því að gefa eftir fullveldi sitt? Þar með er það komið í NATO sem liggur um bæjarhlaðið hjá Rússum,akkurat það sem er ögrandi.

Helga Kristjánsdóttir, 9.2.2015 kl. 23:56

3 Smámynd: Skeggi Skaftason

Helga,

Hvað meinarðu? Aðild að ESB felur ekki í sér aðild að NATÓ. Svíar eru í ESB en ekki í NATÓ.  Úkraína var heldur ekkert á leið inn í ESB.

Skeggi Skaftason, 10.2.2015 kl. 09:53

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Spurning oní spurningu. Svaraðu minni fyrst!!  - Þetta; Rússar líta svo á,þegar nágrannaríki er hluti af sambandi sem hefur þjóðir þess á sínu valdi í veigamestu stefnum,er ógnin nær.

Helga Kristjánsdóttir, 10.2.2015 kl. 13:10

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Lönd geta auðvitað átt viðskipti án þess að gefa upp fullveldi sitt. Svo stundum gera þjóðir með sér tvíhliða samninga (eða samninga fleiri ríkja) sem kveða á um ákveðna sameiginlegar reglur til að liðka fyrir viðskiptum og skapa sameiginlegan markað.  Svoleiðis sameiginlegar reglur eu í hlutarins eðli ákveðin afsal á "fullveldi", þar sem reglurnar ákvarðast af þjóðunum sameiginlega.

Skeggi Skaftason, 10.2.2015 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband