Þriðjudagur, 16. desember 2014
Fjölmenningarstefna er rasismi
Aðskildir en jafnir, var fjölmenningarstefna í Bandaríkjunum á síðustu öld sem fól í sér að hvítir og þeldökkir bjuggu ekki í sömu hverfum og notuðu ekki sömu opinberu þjónustuna nema að takmörkuðu leyti. Bandaríska fjölmenningarstefnan er ónýt, eins og sést á óöldinni þar nú um stundir.
Í Evrópu var fjölmenningarstefna reynd á eftirstríðsárunum sem leiddi til þess að innflytendur hrúguðust samfélagslega afkima með tilheyrandi útskúfun. Fjölmenningarstefnan er fordæmd af Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, einnig af Cameron forsætisráðherra Bretlands og sömuleiðis af fráfarandi forseta Frakklands, Sarkozy.
Fjölmenningarstefna er rasísk í eðli sínu vegna þess að hún aðskilur menningarhópa og úthýsir minnihlutahópum sem búa við verri aðstæður efnahagslega, félagslega og menningarlega.
Atlaga vinstrisinna að þjóðmenningu Íslendinga er undir formerkjum fjölmenningarstefnu. Líf Magneudóttir, varaborgarfulltrúi Vg, segir fullum fetum:
Við erum að stefna hérna að fjölmenningarsamfélagi
Vinstrimenn á Íslandi standa sem sagt fyrir innflutningi á rasisma sem búið er að hafna í Ameríku og Evrópu.
Íslenskir vinstrimenn eru sérlega illa heppnað pólitískt fyrirbrigði; það er varla til sú ömurlega hugmynd sem þeir falla ekki fyrir.
Athugasemdir
Munum að fjölmenning er mjög víðtækt hugtak.
Einstaka siðir eins og jóga-heimspeki gætu leitt til framþróunnar fyrir okkar samfélag á sama tíma og múslima-siðir og gay-pride-göngur eru skref aftur á bak í þróuninni.
Jón Þórhallsson, 16.12.2014 kl. 15:30
Pistlar þínir um þetta efni verða sífellt furðulegri. Útskýrðu aðeins betur hvernig aðskilnaðarstefna hluta Bandaríkjanna gagnvart svörtum á 19. öld og fyrri hluta 20. öld var "fjölmenningarstefna"?
Og hvað er til ráða þar? Hætta öllu sem kalla má "fjölmenning"??
Skeggi Skaftason, 16.12.2014 kl. 15:44
Fjölmenningarstefna í pólitískri umræðu heitir upp á ensku multiculturalism. Víst er ýmsu aðskiljanlegu sópað þar undir sama hatt. Í meginatriðum er boðskapurinn sá að halda eigi menningarhópum aðskildum, hvort heldur þeir séu skilgreindir út frá hörundslit eða trú. Og sú stefna leiðir samfélög í ógöngur þar sem minnihlutahópar aðgreinast í kima og falla utan meginstrauma samfélagsins.
Hugsunin með fjölmenningarstefnu var upphaflega ekki rasísk, heldur þvert á móti. Á hinn bóginn verður hún í framkvæmd rasísk vegna aðskilnaðarstefnunnar sem felst í henni.
Vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum.
Páll Vilhjálmsson, 16.12.2014 kl. 16:04
Bravó fyrir þessu Páll. Þetta er nefnkilega kjarni málsins um fjölmenningarkjaftæðið sem hér ríður húsum. Dæmin frá bandaríkjunum sanna þetta.
Halldór Jónsson, 16.12.2014 kl. 22:21
PV segir um fjölmenningarstefnu:
Í meginatriðum er boðskapurinn sá að halda eigi menningarhópum aðskildum
Ja hérna segir ég. Ég hef ALDREI áður fyrr né síðar séð þessa túlkun á hugtakinu fjölmenningarstefnu.
Skeggi Skaftason, 16.12.2014 kl. 22:35
Á Vestfjörðum hefur verið rekin fjölmenningarstefna, sem birtist kannski einna best á svonefndri "Þjóðahátíð" sem þar er haldin árlega.
Sú fjölmenningarstefna byggist ekki á því að halda menningarhópum í aðskildum hverfum og ég hef hvergi fyrr séð því haldið fram að þeir, sem aðhyllast fjölmenningarstefnu vilji að hóparnir búi í mismunandi hverfum, og telji það forsendu fyrir stefnunni, heldur þvert á móti.
Ómar Ragnarsson, 16.12.2014 kl. 22:38
Á vísindavefnum er ágæt skilgreining á hugtakinu fjölmenningarhyggja. Sú skilgreing á ekkert skylt við heimatilbúna bullskýringu Páls:
Fjölmenningarhyggja (e. interculturalism) er hugmyndafræði sem felur í sér að í margbreytilegum samfélögum þurfi virk samskipti milli mismunandi menningarhópa, að meðlimir ólíkra menningarhópa njóti sama réttar og hafi sömu möguleika, að allir einstaklingar séu álitnir jafn mikilsverðir þegnar samfélagsins og að valdaskipting samfélagsins sé óháð uppruna eða menningu. Fjölmenningarhyggjan gerir ráð fyrir að fjölbreytileiki samfélags sé mikilvægur auður sem beri að nýta, og að þessi fjölbreytileiki skuli endurspeglast í formgerð allra opinberra stofnana innan þess.
Hvað er fjölmenning?
Í íslensku er orðið fjölmenning yfirleitt ekki notað eitt og sér heldur sést það frekar í samsetningum eins og "fjölmenningarlegt samfélag", "fjölmenningarlegur skóli", "fjölmenningarlegur vinnustaður" og svo framvegis. Í því samhengi er yfirleitt átt við staði þar sem ólíkt fólk með margvíslega menningu (menntun, aldur, kyn, kynhneigð, lífsstíl, hefðir, siði, klæðaburð, mataræði, tungumál, trúarbrögð, viðhorf, gildi, uppruna og þjóðerni) býr og starfar saman á jafnréttisgrundvelli.
Þegar Páll segir að fjölmenning sé "aðskilnaðarstefna" er hann að snúa hlutunum algjörlega á haus. Fjölmenning felur einmitt í sér að fólk með mismunandi siði og menningu geti lifað SAMAN.
Skeggi Skaftason, 16.12.2014 kl. 23:04
Ég tek heilshugar undir með Halldóri Jónssyni hér fyrir ofan.
Þórólfur Ingvarsson, 16.12.2014 kl. 23:05
Þetta getur verið sitthvor umræðan:
1.Hvort að um sé að ræða pólitíska stefnu flokks í innflytjendamálum og hvort að byggja eigi ótal trúarstofnanir út um alla borg.
EÐA
2.Hvort að um sé að ræða eitthvert 1 hús/stofnum þar sem að ólíkum hópum er ætlað að koma saman til að leysa eitthvert verkefni t.d. eins Sameinuðuþjóðirnar eru.
Jón Þórhallsson, 17.12.2014 kl. 00:19
Jákvæð fjölmenningarstefna þýðir einfaldlega að tekist hafi að blanda saman vatni og oíu með því að hræra þeims saman nógu hratt og öfluglega að þau aðskilji sig ekki af eðlilegum ástæðum... :)
Sigurbjörn Friðriksson, 17.12.2014 kl. 01:17
Páll hefur rétt fyrir sér með að notkun fjölmenningarhugtaksins er snúið á haus með að banna hluti. Í því felst andsamfélagsleg aðgerð þótt varla teljist hún rasísk. Fjölmenning felur einmitt í sér að fræða og kynnast ólíkum hlutum. Því er þetta trúarbann algerlega í andstæðu við fjölmenningu enda pólitíkusar sem vilja banna einum en leyfa öðrum ekki í takt við samfélagið.
Rúnar Már Bragason, 17.12.2014 kl. 07:06
Rúnar Már,
hvað er bannað? Er trúarbann á Íslandi?????
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 08:04
Fjölmenningu var stillt upp sem valkosti við þjóðmenningu í ríkjum Vestur-Evrópu þegar fjölda útlendinga bar þar að garði áratugina eftir seinna stríð.
Þessum valkosti hefur verið hafnað af leiðtogum þriggja stærstu Vestur-Evrópuríkjanna; Frakklands, Bretlands og Þýskalands eins og rekið er í bloggfærslunni.
Ástæðan er þessi: fjölmenningarstefna ræktar rasisma með því að afkimavæða innflytjendur.
Innlendar hjárænuskýringar um fjölmenningur breyta ekki þeirri staðreynd að þau ríki Vestur-Evrópu, sem mesta reynslu hafa af stefnunni, eru búin að gefast upp á henni.
Það er aðeins einn valkostur: að innflytjendur lagi sig að þeirri þjóðmenningu sem þeir flytja til. Við þá aðlögun verða þeir virkir þátttakendur í samfélaginu en ekki bundnir við félagsleg, efnahagsleg og menningarleg gettó.
Páll Vilhjálmsson, 17.12.2014 kl. 08:27
Skeggi þegar lagt er til að grunnskólabörn fari ekki í heimsókn í kirkju þá ertu að banna eitthvað. Það er ekki fjölmenning heldur sérhagsmunir. Fjölmenning þar sem fólk aðlagast setur sig ekki upp á móti heimsóknum í trúarstofnanir eða kynningu á menningu annarra.
Rúnar Már Bragason, 17.12.2014 kl. 09:45
Þegar ég óska eftir því að mín börn fari ekki Á HVERJU ÁRI í kirkjulega athöfn hjá einhverjum SÉRTRÚARSÖFNUÐI (sem Þjóðkirkjan er í mínum huga) þá eru það ekki neinir "sérhagsmunir" heldur sjálfsögð ósk um að börn mín sleppi við trúarlega innrætingu í skóla.
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 10:03
Páll:
"innlend hjárænuskýring" þetta er ljómandi góð skilgreining á þinni heimatilbúnu skýringu sem enginn hefur áður heyrt minnst á.
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 10:04
Skeggi þetta eru valferðir og ef þú vilt ekki að börnin þín fari þá einfaldlega lætirðu vita af því. Að allir hinir þurfi að elta þínar skoðanir er einfaldega ekki rétt. Flestir foreldrar eru ekki að setja sig upp á móti þessum ferðum þannig að þetta verða sérhagsmunir, sem hafa val um að gera annað.
Rúnar Már Bragason, 17.12.2014 kl. 11:38
Rúnar Már,
myndir þú vilja að skólinn þinn færi á hverju ári í jólastund hjá Krossinum? En jú jú, barnið þitt fengið að gera "eitthvað annað", ef þú myndir passa að senda skriflega beiðni um það með tveggja daga fyrirvara.
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 12:11
En hvað ef barnið vill fara, Skafti?
Ragnhildur Kolka, 17.12.2014 kl. 13:40
Ég myndi sjálfur auðvitað leyfa barninu mínu að mæta. Þetta er ekkert hættulegt. Það versta sem getur gerst er að barnið taki mark á boðskap prestsins um eilífan frið og friðþægingu til handa þeim sem trúa en glötun og myrkur fyrir vantrúaða, þar með talið okkur foreldra barnsins.
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 15:02
Krossinn var aldrei inn í þessari umræðu heldur einugis kirkjan og já ég vorkenni þér ekkert að svara tölvupósti um hvort þú samþykkir ferð barnsins í kirkjuferð. Það er nú ekki flóknara en það. Svo endar þú á því að fordæma það sem barnið (kannski) vill trúa af því að það fer ekki saman við þínar skoðanir. Hvað varð um sjálfstæðan vilja og fá að vera maður sjálfur?
Rúnar Már Bragason, 17.12.2014 kl. 15:15
Rúnar Már,
Ég var ekkert að fordæma! Þú verður að lesa það sem skrifa!! Ég var bara að vitna til einnar grundvallarsetningar kristinnar trúar. Ferð þú aldrei í kirkju? Ég var fermdur á sínum tíma svo ég man þetta alveg.
Í mínum huga er stigsmunur en ekki eðlismunur á trúfélaginu Þjóðkirkjunni og trúfélaginu Krossinum.
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 15:59
Mér finnst þú fordæma það hvernig þetta er kynnt fyrir börnunum út frá fermingafræðslu sem þú fékkst með því að gefa þér að talað verði um syndina. Held sé mun líklegra að talað sé um kærleika gagnvart öðrum. Sjálfur er ég ekki kirkjunar maður og forðast að fara í kirkju. Hef hins vegar ekkert á móti því að börnin mín fari eða kynni sér þetta eins og þau vilja. Það er ekki mitt að ákveða hvað þau vilja gera í trúmálum en ég ræði auðvitað við börnin um þessi mál á hlutlægan hátt.
Rúnar Már Bragason, 17.12.2014 kl. 18:30
Jæja Páll róum okkur nú aðeins í bullinu. Fjölmenningarstefna leggur ekki upp með að halda menningarhópum aðskildum heldur að rækta og varðveita sem flesta þætti ólíkra menninga. Þó aðskilnaður hafi verið afleiðing einhverrar stefnu einhverstaðar þá er það ekki markmið.
Fjölmenningu verður heldur ekki stillt upp sem valkosti á móti þjóðmenningu eins og þú segir að hafi verið gert því þú losnar ekkert við menningu eftir pöntunum þannig að í raun er ekkert val. Allskonar menning er til staðar hvort sem þér líkar betur eða verr.
Það sem þú kallar síðan þjóðmenningu er í nútímanum alltsaman einhverskonar fjölmenning. Íslensk þjóðmenning er ekkert fundin upp hér heldur eru þetta áhrif héðan og þaðan.
Íslenska lopapeysan er ekki íslensk uppfinning
Íslenska lopapeysumunstrið kemur upprunalega frá indjánum S-Ameríku (eins og íslenskar kartöflur)
Íslenska orðið peysa kemur úr frönsku
Hættiði svo þessu væli og reynið að halda gleðilega sólstöðuhátíð. Og ekki reyna að halda því fram að íslenska þjóðkirkjan hafi fundið upp jólin. Það verður sennilega næst hjá ykkur moggaliðinu....
Kommentarinn, 17.12.2014 kl. 22:24
ÉG veit ósköp vel að prestarnir sykurhúða trúarboðskapinn til barnanna, en það sem ég er að benda á er samt sem áður lykilatriði í kristinni trú. Ætlar einhver að neita því?
Skeggi Skaftason, 17.12.2014 kl. 23:35
Hvernig getur nokkur verið á móti svona fjölmenningu?
http://i.imgur.com/tWZvgUt.gif
Jón Ragnarsson, 18.12.2014 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.