Mánudagur, 12. mars 2007
Vestfirðir sumarbústaðabyggð?
Á borgarafundi á Ísafirði um helgina sagði einn fundarmanna að þess væri ekki langt að bíða að Vestfirðir yrðu sumarbústaðaland. Þögult hamfaratímabil hefur riðið yfir landsfjórðunginn á liðnum árum og áratugum, sagði einn fundarboðenda, Ólína Þorvarðardóttir á bloggi sínu fyrir skemmstu.
Vestfirðingar vita sjálfir manna best hvort svartsýnin sé réttmæt eða ekki. Fréttir af lokun fyrirtækja, Marel núna síðast, þar sem 20 manns minnstu vinnuna, draga eðlilega úr bjartsýni fólks. Samgöngur og flutningskostnaður eru, auk atvinnumála, ástæður helst nefndar fyrir ástandinu.
Frásagnir af fundinum gefa til kynna að bjargráðin séu helst þau að ríkisvaldið fjölgi störfum á svæðinu. Fyrir nokkrum dögum sagði bæjarstjóri Ísafjarðar, Halldór Halldórsson, að ríkisvaldinu bæri að flytja störf til fjórðungsins í tuga eða hundraðavís.
Ef byggð á Vestfjörðum er dæmd mun engin ráðstöfun ríkisvaldsins breyta dómsorðinu. Byggð er þar sem fólk vill búa. Ástæðurnar fyrir vali á búsetu eru fjölbreytilegar en þegar í hlut eiga byggðir sem standa höllum fæti er spurningin sem fólk þarf að spyrja sig þessi: Hvers vegna vil ég búa hérna?
Næsta skref er að viðkomandi samfélag myndi sér skoðun á því hvað þarf til að byggð haldist. Samstaða íbúanna er forsenda fyrir áætlunum og aðgerðum til að snúa þróuninni við. Liður í þeim áfanga er að fá ríkisvaldið til að axla sinn hluta.
Vonandi tekst Vestfirðingum að finna taktinn og eflast á ný þannig að sumarbústaðabyggð verði aðeins í bland við þá byggð sem þrifist hefur í fjórðungnum frá landnámi.
Athugasemdir
Skil ekki þessa athugasemd.
Seldu ekki úgerðarmenn fyrir vestan kvótann sjálfir? Þeir fyrir vestan virðast aldrei hafa getaða staðið saman um neitt. Það sem gerðist síðan jákkvætt var að trillubátar fluttust vestur og eru þar enn eftir því sem ég best veit.
Það var öðruvísi á Bakkafirði þar (þar er aðeins smábátahöfn) var kvótinn skertur svo á trilluútgerðarmönnum auk þess takmarkaður á tímabili með sóknarstýringu úr sjávarútvegsráðuneytinu að ekki var raunhæft að gera út sumar trillurnar.
Þó standa nú nokkrir ungir menn eftir sem eru uppistaða í því byggðarlagi.
Þetta hefur verið afar hörð barátta fyrri trillusjómenn en þeir hafa borið gæfu til a standa saman.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 12.3.2007 kl. 06:59
Ein athugasemd . . . „Byggð er þar sem fólk vill búa." Nei, byggð er þar sem atvinnu er að hafa. Engin atvinna, engin byggð. Það er fullt af fólki sem myndi vilja búa úti á landi, t.d. á Ísafirði þar sem lífsgæðin eru mun meiri heldur en í þessu bíla- og skutlsamfélagi á höfuðborgarsvæðinu.
Vestfirðingur (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 08:48
Hugmyndin með opinberu störfunum er þessi: Frá 1994 hefur það verið samþykkt stefna hins opinbera að fækka opinberum störfum á höfuðborgarsvæðinu og fjölga þeim úti á landsbyggðinni - s.s. að flytja þau þangað, og rökin ekki síst að þessi störf megi vinna hvar sem er og ósanngjarnt sé að ríkið sé með öll sín umsvif í þeim hluta landsins þar sem atvinnulíf er eðli málsins samkvæmt fjölbreyttast hvort eð er - (það er út af fyrir sig undarlegt að ríkið hlutist nokkuð til um atvinnulíf í fjölmennasta fjórðungnum). Frá þessum tíma hefur opinberum starfsmönnum á landsbyggðinni fækkað lítið eitt - þeim hefur hins vegar fjölgað um 3.000 á höfuðborgarsvæðinu, eða eins og sem nemur stóru byggðalagi.
- e.
e (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 08:54
Langar að benda á að það voru margar tillögur sem voru lagðar fram á þessum fundi, sem og á öðrum fundum sem haldnir hafa verið, aðrar en að flytja opinber störf út á land. Ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi haldið því fram að lausnin á vanda landbyggðarinnar felist í því eingöngu að fjölga opinberum störfum, það er aðeins brot af jöfnunni.
Það sem Vestfirðingar hafa verið að fara fram á er einfaldlega að fá að sitja við sama borð og aðrir landsmenn! Fyrirtæki á svæðinu eru t.a.m. ekki samkeppnishæf, hvorki innan- né utanlands vegna þess hversu hár flutningskostnaðurinn er. Ekki nóg með að sum þeirra þurfi að flytja hráefni hingað, heldur þurfa þau að flytja allt sem þau senda frá sér fyrst til Reykjavíkur, því það er ekki lengur útflutningshöfn á svæðinu. Þetta er tilkomið vegna ákvarðanna flutningsfyrirtækjanna, sem jafnframt lögðu af strandsiglingar og er því allt flutt með flutningabílum á landi - langar vegalengdir, misgóðir vegir, þrjár heiðar og 8 tíma akstur.
Vandamálið liggur ekki í tillöguleysi, ótal margar skýrslur og úttektir hafa verið unnar um ástandið og í þeim öllum hafa komið fram tillögur, en þessum sömu skýrslum er stungið undir stól og ekkert að gert. Þegar verið er að kalla eftir aðstoð stjórnvalda er einfaldlega verið að biðja um að unnið verði að þessum tillögum sem heimamenn hafa unnið, yfirleitt í samstarfi við stjórnvöld, eða a.m.k. að ekki verði unnið gegn þeim, og að tekið verði e-ð tillit til þeirrar sérstöðu sem svæðið hefur.
Albertína (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 10:47
Nah...Vestfirðir verða aldrei sumarbústaðabyggð - samgöngurnar eru of lélegar til að sumarbústaðaeigendur í Reykjavík vilji leggja það á sig að fara þangat
Púkinn, 12.3.2007 kl. 12:08
Ekki batna samgöngur við Vestfirði þegar þarf að fresta vegagerð til að slá á þenslu á höfuðborgarsvæðinu.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 12.3.2007 kl. 20:00
Og hvað sló frestun vegagerðar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra mikið á þensluna á meðan á frestuninni stóð? - Svar 0,03%
Björn Davíðsson, 13.3.2007 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.