Miðvikudagur, 7. mars 2007
Þriðja kenningin um upphaf Baugsmála
Tvær kenningar eru um upphaf Baugsmála sem hófust formlega í ágúst 2002 með húsleit efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í höfuðstöðvum Baugs. Í fyrsta lagi almenna kenningin um að Jón Gerald Sullenberger hafi lagt fram gögn sem gáfu tilefni til að ætla að forsvarsmenn Baugs væru sekir um refsilagabrot. Í öðru lagi Baugskenningin um samsæri valdaaðila í þjóðfélaginu gegn Baugi og skal þar hafa farið fremstur Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra.
Þriðja kenningin er að húsleitin hjá Baugi hafi átt sér fordæmi og að forsvarsmenn Baugs hafi jafnvel átt nokkurn hlut þar að máli.
Fyrsta stórinnrás yfirvalda í íslensk fyrirtæki var gerð 18. desember 2001 þegar Samkeppnisstofnun gerði húsleit hjá olíufélögunum. Í dómsúrskurði fyrir húsleitarheimild kemur fram að Samkeppnisstofnun hafi nýlega borist upplýsingar og ábendingar" um samráð olíufélaganna. Aldrei hefur verið upplýst hver kom þessum upplýsingum á framfæri við Samkeppnisstofnun.
Sá sem tók upplýsingarnar fyrst saman var millistjórnandi eins olíufélaganna sem var sagt upp en fékk tíma til að viða að sér gögnum sem m. a. lutu að samráði olíufélaganna. Á grundvelli þessara gagna var samin skýrsla, sumir segja tvær skýrslur. Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins fékk að sjá hluta gagnanna undir reyfarakenndum kringumstæðum eins og hann segir frá í Morgunblaðsgrein um Baugsmál 25. september 2005.
Baugsmálið er ekki eina málið, sem hefur borið að okkur á Morgunblaðinu með framangreindum hætti. Fyrir nokkrum árum fékk ég munnlegar upplýsingar, sem bentu til að um skipulagt verðsamráð væri að ræða á milli olíufélaganna. Ég benti viðmælendum mínum á að við gætum ekki borið fram slíkar ásakanir á grundvelli nafnlausra heimilda. Við yrðum að fá að sjá gögn. Mér voru sýnd (en fékk ekki að snerta!) tölvupóstssamskipti á milli starfsmanna olíufélaganna. Þegar ég spurði hvort við gætum fengið gögnin í hendur var svarið neitandi. Nokkrum mánuðum síðar sá ég af málatilbúnaði Samkeppnisstofnunar í hvaða farveg málið hafði farið. Mér er því kunnugt um hvar málið hófst og þætti mörgum fróðlegt að vita en blaðamenn gæta trúnaðar í samskiptum við heimildamenn sína.
Baugsmenn fengu í hendur upplýsingarnar frá millistjórnandanum. Baugur hafði um langt skeið reynt að komast inn á olíumarkaðinn en orðið lítið ágengt. Þá var Baugur áhugasamur að beina umræðu um hátt neysluvöruverð frá matvörumarkaðnum yfir á eldsneytismarkaðinn. Ekki síst voru Baugsmenn þekktir fyrir að víla ekki fyrir sér óhefðbundna viðskiptahætti.
Sterkar líkur eru fyrir því að Baugur hafi hlutast til um að Samkeppnisstofnun fengi gögnin sem gáfu tilefni til húsleitar hjá olíufélögunum. Það dregur ekki úr líkunum að fjölskyldutengsl voru á þessum tíma á milli yfirmanna Baugs og Samkeppnisstofnunar.
Málatilbúnaður og aðdragandi rannsóknar yfirvalda á olíufélögunum skapaði fordæmi um það hvernig skyldi brugðist við þegar gögn um ætlaða refsiverða háttsemi kaupsýslumanna komast í hendur yfirvalda. Þegar Jón Gerald Sullenberger leggur fram upplýsingar um Baug sem hann hafði undir höndum var hæpið af yfirvöldum að vísa erindi hans frá.
Þriðja kenningin um upphaf Baugsmála er all nokkru sennilegri en hinar tvær.
Athugasemdir
Já athyglisvert,hver veit ég get sagt eitt í sambandi við baugsmálið stóra allir eru með óhreint mjöl í poka sínum,ekki síður saksóknari en aðrir sem fyrir dómi eru,allir hafa eitthvað á sinni samvisku,meira að segja lögreglan í sínum rannsóknarleiðangri í þessu leiðinda máli,þetta er búið að kosta þjóðfélagið okkar alveg nóg,og hverjum er ekki sama um hver svaf hjá hverjum og reyndi við hverja og hversvegna,ég spyr afhverju má ekki kalla Davið Oddsson til vitnis,hann kemur aldrei fram í einu eða neinu nema hafa fengið að sjá allar spurningar fyrst,og helst fengið að semja þær sjálfur,allavegana er það mín kenning í þessu máli,hann er upphaf og endir þessa máls.
Virðingafyllst Úlfar B Aspar.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 7.3.2007 kl. 06:04
65. kenningin um upphaf Baugsmála: Idioterne eftir Lars von Trier kveikti neistann hjá þeim sem ekki má nefna.
Steini Briem (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 11:52
Kenning sem er allrar athygli verð.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.3.2007 kl. 12:46
Hafa allir gleymt Össuri?? "You ain´t seen nothing yet" (úr frægu bréfi). Er hann ekki bara á bak við þetta mál en ekki Davíð.....
Sigurjón (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 22:45
Þessi kenning hljómar sem mjög líkleg. Gott plott til að lækka verðið á olíufélögunum og komst svo yfir eins og eitt stykki fyrir slikk. Verst að stundum koma hluturnir í bakið plotturunum. :-)
Sigurður J. (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 23:21
Í einfeldni þinni virðist þú ekki sjá að allar þessar kenningar geta farið saman og þér yfirsést nærtækasta skýringin á upphafi Baugsmálsins sem er þessi:
Ritstjóri nokkur er í sambandi við konu sem er í hefndarhug gagnvart sínum fyrrverandi sambýlismanni. Hún hefur dreift ásökunum um allt þjóðfélagið um meinta háttsemi sambýlismannsins og samstarfsmanna hans en án árangurs. Ásakanirnar eru frá fyrrum viðskiptafélaga fyrirtækis sambýlismannsins sem telur sig eiga óuppgerðar sakir við eigendur þess. Konan vill að ritstjórinn beiti áhrifum sínum til að á hana verði hlustað. Ritstjórinn lætur til leiðast enda er hann líka ósáttur þar sem hann telur fyrirtæki þess fyrrverandi bera ábyrgð á því að vinir hans hjá olíufélögunum fengu heimsókn frá samkeppnisyfirvöldum. Þetta heldur hann en veit þó ekki fyrir víst. Ritstjórinn kemur upplýsingum konunnar um meint brot á framfæri við lögregluna. Vinir ritstjórans á háum stöðum fagna þessu frumkvæði hans ákaft og veita málinu brautargengi. Þeim er enda í nöp við umrætt fyrirtæki. Lögreglan ræðst í húsleit á grundvelli upplýsinganna sem ristjórinn og vinir hans komu til hennar frá konunni og viðskiptafélaganum, en þær upplýsingar reynast ónákvæmar í meira lagi og upp hefst endalaus vandræðagangur í mörg ár til að breiða yfir og réttlæta mistökin. Hefnd sambýliskonunnar, ristjórans, innvígðu og innmúruðu vinanna, viðskiptafélagans ótrúverðuga og lögreglunnar rennur út í sandinn. Hópur áhrifamanna stendur uppi ærulaus vegna afskipta sinna af málinu á grundvelli frumhlaups ristjórans.
Friðjón Ó (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.