Traustsyfirlýsing á stjórnmálakerfið

Eftir hrun riðaði stjórnmálakerfið til falls. Fylgi við dáraframboð Besta flokksins í Reykjavík 2010 sýndi fullkomið vantraust á starfandi stjórnmálaflokkum. Í kjölfarið reyndu ýmsir hópar að gera út á óánægða kjósendur, sbr. fjölda framboða við síðustu þingkosningar.

Í síðustu þingkosningum virtist hætta að fjara undan stjórnmálakerfinu sem heild. Eina nýja stjórnmálaaflið sem náði teljandi árangri var Björt framtíð, sem stofnuð var af tveim starfandi þingmönnum, Guðmundi Steingríms og Róberti Marshall, og er almennt viðurkennd sem útibú Samfylkingar.

Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna í gær staðfestir að háflæði óánægju með rótgrónu flokkana er liðið hjá. Björt framtíð festir sig í sessi en önnur framboð nýbreyti skoruðu lítt eða ekki.

Ríkisstjórnarflokkarnir mega vel við una. Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu í nærfellt öllum sveitarfélögum utan höfuðborgarinnar þar sem Framsóknarflokkurinn er sigurvegarinn

Vinstriflokkarnir vonuðust til að fá aukið lögmæti á landsvísu en varð ekki kápan úr því klæðinu. Með því að þrír vinstriflokkar bítast núna um sama fylgið er hætt við að gamalkunnar innbyrðiserjur vinstrimanna láti á sér kræla.

Lítil kosningaþátttaka er til marks um að stórir kjósendahópar eru sáttir við pólitíkina og finnst ekki nauðsynlegt að láta til sín taka. 

Stjórnmálakerfinu er ætlað að bjóða kjósendum upp á valkosti í kosningum. Íslenska stjórnmálakerfið virkar, það sýndu kosningarnar í gær.


mbl.is D-listi stærstur nema í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Páll - sem og aðrir gestir þínir !

KJAPTÆÐI - kjaptæði Páll minn !

Íslenzka stjórnkerfið: ER RJÚKANDI RÚSTIR sökum þess / að ekki var komið hér á NÚLL (0) stillingu Haustið 2008 - eins og gera átti þá STRAX. Til að minnsta kosti - mögulegrar ENDURREISNAR lands og miða og fólks og fénaðar.

Ertu algjör Sauður - Páll minn ?

Okkur einyrkjum t.d. - er haldið algjörlega niðri / og vaxandi fjöldi almennra Borgara lepur Dauðann úr skel.

Þú ættir aðeins - eð víkka sjóndeildarhring þinn / áður en þú tekur til við næstu lofgerðarrullu smíð þína: Páll minn !

Með kveðjum - samt sem áður / af Suðurlandi //

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 14:20

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Óskar Helgi, gaman að heyra í þér sem fyrrum, og kærar þakkir að þú beinir athugasemdum til mín.

Það er hagvöxtur á Íslandi, eitthvað 3 til 5 prósent, og atvinnuleysi er lágt. Þótt enn séu erfiðleikar vegna hrunsins þá er varla ofmælt að jafnt og þétt fækkar þeim sem eiga um sárt að binda vegna efnaleysis.

Léleg efnahagsleg afkoma er ekki ástæða til að ala á heimsósómahneigð - en margt annað má vitanlega betur fara, bæði hér heima og veröld víðri. Þú stendur vaktina, trúi ég.

Góðar kveðjur til þín og þinna á Suðurlandi, Óskar Helgi.

Páll Vilhjálmsson, 1.6.2014 kl. 14:47

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Nú er ég sammála þér Óskar með 0 stillinguna. Og mér finnst þetta svolítin öfugmæli hjá þér Páll með stjórnmálakerfið. Segir það þér ekkert að 37% kjósenda í Reykjavík taka ekki þátt?

Jósef Smári Ásmundsson, 1.6.2014 kl. 16:08

4 Smámynd: Þórður Einarsson

Sæll Páll

Þessi greining er að mínu mati kolröng.Almenningur er alltaf að átta sig betur og betur á þvi að það skiptir í raun engu máli hvaða silkilúfur sitja í þessum stjórnum,allflestir eru vanhæfir og eru einungis,eins og Gnarrinn,að finna sér þægilega og lítt slítandi stöðu með þokkalegum launum.Fyrir ekki svo löngu síðan var Reykjavík í raun stjórnlaus í 100 daga og almenningur varð ekki var við það.Mín spá er að í næstu alþingiskosningum verði þátttaka vel innan við 70%,og í næstu sveitarstjórnarkosningum kringum 50%.Íslensk pólitík er enn í niðursveiflu og mannvalið býður ekki upp á annað næstu árin.

Þórður Einarsson, 1.6.2014 kl. 16:34

5 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Hagvöxtur eða ekki, fólk lýsir frati í pólitíkina og er ég hissa á þeim sem ekki skynja þessar augljósu skilaboð.

Eyjólfur Jónsson, 1.6.2014 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband