Þriðjudagur, 29. apríl 2014
Sterk evra, veik Evrópa
Stór hagkerfi í Evrópu, t.d. Spánn og Ítalía, eru í kreppu vegna sterkrar evru. Minni hagkerfi í þeim 18 ríkjum sem nota evru sem gjaldmiðil, Portúgal og Grikklandi sem dæmi, eru á barmi þjóðfélagslegrar upplausnar - vegna evrunnar. Þessi lönd þurfa sárlega gengisfellingu upp á 20 til 40 prósent til að komast aftur á lappirnar.
Seðlabankastjóri evrunnar, Mario Draghi, kvartar undan sterkri evru. En hendur Draghi eru bundnar; seðlabanki evrunnar er aðeins með umboð til að stýra verðbólgumarkmiði gjaldmiðilsins, ekki skiptigild evrunnar á gjaldeyrismarkaði.
Roger Bootle heitir maður sem skrifar margt skynsamlegt um efnahagsmál. Í grein, þar sem hann fjallar um breska pundið, vekur hann athygli á hversu yfirgengilega erfitt það er að stilla af ,,rétt" gengi gjaldmiðils. ,,Rétt" gengi gjaldmiðils er það gengi sem til lengri tíma þjónar best hagsmunum viðkomandi samfélags. Vel að merkja: frjálst gengi gjaldeyrismarkaða er ekki það ,,rétta" skv. skilgreiningu Bootle, - til þess eru gjaldeyrismarkaðir of braskvæddir.
Þegar það er yfirgengilega erfitt að stýra breska pundinu svo vel sé, sem er jú aðeins gjaldmiðill Bretlands, þá ættu flestir læsir að skilja að ógjörningur er að stýra evrunni, gjaldmiðli 18 þjóðarhagkerfa, þannig að vel fari.
Evran er sjálfstæð uppspretta efnahagslegs óstöðugleika og gerir Evrópusambandið að vandræðagrip í alþjóðahagkerfinu. Þar fyrir utan viðheldur evran eymd og volæði milljóna íbúa á meginlandi álfunnar.
Tæp 26% Spánverja án vinnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.