Þriðjudagur, 8. apríl 2014
Valdapólitík í Evrópu 1914 og 2014
Fyrir hundrað árum vildu Þjóðverjar fá viðurkenningu á stórveldastöðu sinni á meginlandi Evrópu. Bretar voru ekki á því að leyfa Þjóðverjum sæti undir sólinni og gerðu bandalag við Frakka og Rússa til að halda aftur af metnaði þeirra þýsku. Fyrri heimsstyrjöld hófst vegna valdaskaks stórþjóða Evrópu.
Í dag takast á í Austur-Evrópu hagsmunir Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Rússlands. Þjóðverjar, sem leiðandi afl í Evrópusambandinu, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Í einn stað telja þeir Úkraínu, a.m.k. vesturhluta landsins, eiga að bindast hagsmunaböndum við Evrópusambandið en í annan stað viðurkenna þeir að Úkraína, a.m.k. austurhlutinn, sé á hefðbundnu áhrifasvæði Rússa. Þannig talar t.d. fyrrum kanslari Þýskalands, Helmuth Schmidt.
Stórt hlutfall Rússa innan landamæra Úkraínu gefur Pútín forseta lögmæti í valdaskakinu. Hann er þegar búinn að hirða Krím af Úkraínu. Saðning eykur svengd valdaúlfa eins og Pútíns.
Enginn veit hvernig spilast úr valdapólitíkinni á meginlandi Evrópu næstu misseri, ekki frekar en menn sáu fyrir hvað yrði úr morðinu á erkihertoganum Frans Ferdínand og Sofíu konu hans í Sarajevo 28. júní 1914. Hitt er öllum læsum á íslensku morgunljóst að við eigum enga hlutdeild í valdaskaki meginlandsþjóða Evrópu.
Innrás yrði söguleg mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Síðast þegar ríkin í evrópu voru í stríði varð það til að Ísland var hernumið og erlend herstöð var á landinu út af valdaskaki Rússa og bandamanna okkar í meira en hálfa öld.
Helduru að Ísland er ekki ennþá mikilvægur liður í því að tryggja fluttning byrgða og hergagna milli Ameríku og Evrópu sem til dæmis Rússar mundu núna þurfa að yfirtaka í heildar stríði?
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.4.2014 kl. 12:33
Ef kemur til þess, Elfar Aðalsteinn, að Nató, sem er hernaðarbandalag Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu, skipti sér af málum í álfunni þá hljótum við að axla okkar ábyrgð sem aðilar að Nató. Við skulum vona að ekki komi til þess.
Páll Vilhjálmsson, 8.4.2014 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.