Mánudagur, 17. mars 2014
Þjóðaratkvæði í þágu Marel
Fyrirtækið Marel gaf starfsfólki sínu frí til að fara á Austurvöll að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllun ESB-umsóknar. Atferli stjórnenda Marel og ESB-sinna eru fyrirmynd að því að kaupa fylgi við þjóðaratkvæðagreiðslu með því að splæsa saman sérhagsmunum og sértrúarhópum.
Ístöðulitlir stjórnmálamenn eins og Bjarni Benediktsson, sem gefa eftir öfgafólki, og opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í pólitískum meginmálum lenda í þeim vanda að öfgafólkið vill ráða spurningunni.
Greyið hann Bjarni ætlar að bjóða upp á þjóðaratkvæði um hvort ESB-umsóknin verði látin liggja kyrr, þar sem Samfylkingin og VG skildu við hana fyrir rúmu ári, eða afturkalla umsóknina eins og stjórnarflokkarnir voru kosnir til að gera. En þá rísa upp á afturlappirnar talsmenn sértrúarhópsins og krefjast þess að ráða spurningunni. ESB-sinnar vilja kjósa um hvort aðildarferlinu, sem þeir kalla viðræður, skuli haldið áfram eða þeim hætt.
Öfgafólkinu er nákvæmlega sama þótt þjóðin sé nýbúin að kjósa sér meirihluta á alþingi sem er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er einmitt einkennið á sértrúaröfgafólkinu; það tekur ekki sönsum.
Þjóðaratkvæðagreiðsluumræðan er óðum að leiða í ljós vankanta þess að setja í þjóðaratvæði stórpólitísk mál, sem ætlast er til að verði ráðin til lykta í þingkosningum.
ESB-málið sýnir svart á hvítu að sérhagsmunaöfl og sértrúarhópar geta knúið á um þjóðaratkvæði sem málefni sem almenningur tók afstöðu til í nýliðnum kosningum. Þjóðaratkvæði beinist þar með gegn þjóðarvilja - og það getur ekki verið rétt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.