Sunnudagur, 9. mars 2014
Stjórnarandstaðan tapar á málþófi
Samfylking, VG og Björt framtíð munu tapa á málþófi gegn ríkisstjórninni og það mun koma þessum flokkum í koll í sveitarstjórnarkosningunum. Fyrir því eru fimm ástæður.
a) Samfylkingin veit ekki í hvort fótinn hún á að stíga, VG hefur yfirgefið ESB-línu Samfylkingar og formaður sætir vaxandi gagnrýni fyrir frjálshyggjustefnu. Móðursýkiskast varaformannsins við síðasta málþóf skilur eftir slæmt eftirbragð.
b) Björt framtíð tapar á því að vera afhjúpuð sem hækja Samfylkingar. Björt framtíð markaðssetur sig sem kósí valkost við ofstæki harðlínu ESB-sinna og kemur illa út sem hundur í bandi Árna Páls.
c) VG er í málefnalegum skítakamar vegna ESB-umsóknarinnar. Þingmenn VG sviku bæði kjósendur og sannfæringu sína þegar þeir studdu að Össur sendi umsókn til Brussel fyrir fimm árum. Í málþófi sem dregst fram á vor gefst fjöldi tækifæra að minna á siðferði þingmanna VG.
d) Málþófið mun hamla því að skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar komist á dagskrá og þar með er stjórnarandstaðan að sýna sig sem andstæðingur hagsmuna heimilanna. Það gerir sig ekki vel gagnvart kjósendum.
e) Efnahagsleg velmegun eykst jafnt og þétt á Íslandi og ríkisstjórnin fær byr í seglin í góðum hagvexti og lágu atvinnuleysi. Stjórnarandstaðan mun virka eins og nátttröll sem dagaði upp í búsáhaldabyltingunni undir slagorðinu Ónýta Ísland.
Ræða ESB-málið á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Segir þetta ekki bara að Samfylking og Björt framtíð eru ekki að hugsa um hag almennings í landinu, heldur eigin frægð og frama?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2014 kl. 23:05
Ég fylgist kannski ekki nógu vel með, en eru skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar nokkuð komnar á dagskrá enn, hvort eð er?
Ómar Ragnarsson, 10.3.2014 kl. 01:26
Ójá ,en það getur hvert mannsbarn sagt sér að undangengin málþóf hafa tafið framgang þeirra. Ætli þessi niðurrifsöfl að halda áfram uppteknum hætti,er bara eitt til ráða,þolinmæði. Málstaður ríkisstjórnarinnar er góður og þeir stefna á að losa þjóðina við umboðslausa og sviksamlega umsókn í Esbé,ið. Eftir það eru allir vegir færir,að því ætlum við að vinna sem erum á móti inngöngu í Evrópusambandið.
Helga Kristjánsdóttir, 10.3.2014 kl. 04:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.