Þriðjudagur, 24. desember 2013
Trú, uppreisn og hún veröld
Veröldin er að stærstum hluta efnisleg. Einhver örlítill hluti er samt annarrar gerðar en afgangurinn. Maðurinn er frá upphafi trúaður á einhvern annan heim en þann sem skynfærin nema. Skýrast kemur þess hneigð mannsins fram þegar hann glímir við harðræði og stendur frammi fyrir hættu.
Í byrjun desember dó rúmlega áttræður bandarískur flugmaður sem var fangi á ,,Hanoi Hilton" fangelsinu í Norður-Víetnam á tímum þjóðfrelsisbaráttu þarlendra við Ameríkana og leppstjórna þeirra í suðurhluta landsins.
Edwin A. Shuman III leiddi kristna tilbeiðslu í fangelsinu vitandi að hann yrði fyrir barsmíðum fangavarðanna. Bænauppreisn Shuman þriðja gegn fangavörðum jók samheldni félaga hans og náði því markmiði að fangaverðirnir létu óátalið að Ameríkanarnir iðkuðu trú sína.
Shuman þriðji slapp lifandi úr fangavistinni og átti síðar eftir að berjast við náttúruöflin á hafi úti. Í minningagrein um hann í New York Times segir að Shuman þriðji líkti háska í hafi við fangavistina í Norður-Vietnam; 'maður kemst ekki út og verður að gera það besta úr stöðunni. Reynslan herðir einstaklinginn.'
Kannski er það þannig með hana veröld í heild sinni. Maður kemst ekki út og gerir það besta úr stöðunni. Og trúin er hugsun um að þegar veraldarvolkinu lýkur taki eitthvað annað við en tómið.
Gleðileg jól.
Athugasemdir
Takk fyrir góða hugleiðingu
Guðjón E. Hreinberg, 25.12.2013 kl. 02:23
Það er mikil þolraun að vera á valdi nautnasjúkra sadista. Allskonar hættur eru við hvert fótmál en við tökum sénsinn,flestir sleppa og lifa lífinu til efri ára í sátt.Einhvernvegin held ég að það sé betra að þekkja ógnvaldinn svo langt sem það nær,glíma við hann og eygja von.-- Taki hann sér bólfestu í eigin sál,veistu að þú kemst ekki út og bíður ekki eftir að veraldarvolkinu ljúki!! Hjálpræðið er í öfgalausri trú á kristindóminn. Gleðieg Jól!
Helga Kristjánsdóttir, 25.12.2013 kl. 02:54
Ágætur pistill, Páll. Gleðileg jól.
Jón Valur Jensson, 25.12.2013 kl. 03:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.