Mánudagur, 11. nóvember 2013
Fyrra stríð og fullveldi Íslands
Fyrri heimsstyrjöld lauk í dag, 11. nóvember 1918. Öllum var ljóst að Þjóðverjar myndu tapa stríðinu eftir að Bandaríkin tóku afstöðu með Bretum og Frökkum vorið 1917. Stórveldi Evrópu römbuðu í stríðið sumarið 1914 meira fyrir skammsýni en ígrundaðan ásetning.
Bandaríkjaforseti, Woodrow Wilson, kynnti í janúar 1918 14 punkta sem grundvöll nýskipunar Evrópu. Sjálfsforræði þjóða var meginatriði.
Íslendingar og Danir höfðu í áratugi þjarkað um fullveldi Íslands og orðið lítt ágengt frá byrjun aldar þegar heimastjórn Íslands var ákveðin. Danir höfðu hug á að fá inn í danska ríkið landamærahéruð við Þýskaland, í Norður-Slésvík. Íbúarnir voru dönskumælandi en innan landamæra Þýskalands.
Til að liðka fyrir samningsstöðu sinni gagnvart fyrirsjáanlegum sigurvegurum stríðsins ákváðu Danir sumarið 1918 að gefa eftir kröfum Íslendinga um fullveldi.
Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918. Í Versalasamningunum 1919 voru landamæri Danmerkur og Þýskalands færð suður á bóginn að kröfu Dana.
Með fullveldinu náðu kröfur Jóns Sigurðssonar frá miðri 19. öld fram að ganga.
Athugasemdir
Já, WW1 = fullveldi, WW2 = sjálfstæði. Síðan tók það bara Jóhönnu Sig. og Steingrím J. til þess að senda inn umsókn um að missa hvorttveggja. Enn erum við ekki laus við umsóknina.
Ívar Pálsson, 11.11.2013 kl. 09:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.