Mánudagur, 9. september 2013
Karlar í kreppu og sjálfsvíg
Karlar eru í kreppu enda ekki lengur ráðandi í samfélaginu. Hlutverk karlsins sem fyrirvinnu og ,,höfuðs" fjölskyldunnar er meira og minna fyrir bí. Karlamenning er undir ágjöf, talin óæskileg arfleifð liðins tíma.
Engu að síður verður að taka vara á þeirri hugmynd að kreppa karlsins auki líkur á sjálfsvígum ungra karlmanna. Ungir karlar alast upp í breytilegu samfélagi og aðlagast nýjum viðmiðum. Ungir karlar fá sína félagsmótun innan um og saman með stúlkum í gegnum skóla. Eldri karlar ættu fremur að vera áhættuhópur m.t.t. kynjakreppunnar.
Sjálfsvíg er persónuleg ákvörðun. Einstaklingsbundnar kringumstæður hljóta að vegna þyngra en samfélagslegar aðstæður.
Tveir til þrír í hverjum mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef við værum að tala um einstaklingsbundnar kringumstæður frekar en samfélagslegar, þá værum við líklega að sjá handahófskennt hlutfall karla og kvenna. Svo er ekki raunin. Karlar hafa verið í miklum meirihluta þeirra sem svipta sig lífi hér á landi um langt árabil.
Munurinn á tíðni sjálfsmorða kvenna og karla er mismunandi eftir samfélögum og bendir það einnig til þess að hér sé um samfélagsmein fremur en einstaklings kringumstæður.
Fyrirvinnuhlutverk karlsins hefur heldur ekki verið tekið frá honum en því hefur verið breytt. Konur hafa alla möguleika á því að vinna fyrir sér sjálfar, en ef þær gera það ekki, þá ber karlinn enn ábyrgðina. Ábyrgð karlsins á fyrirvinnuhlutverkinu er mest áberandi hjá foreldrum sem búa ekki saman. En það á við um foreldra 40% íslenskra barna. Þar er lögheimilisforeldrið (95% konur) sett í umönnun og hitt foreldrið ber ábyrgð á framfærslu. http://www.foreldrajafnretti.is/reiknivel
Það sem hefur breyst við framfærsluskyldu karla er að þessari skyldu fylgja engin réttindi lengur, hvort heldur sem við tölum um forréttindi né annarskonar réttindi. Þannig ber faðirinn fulla ábyrgð á framfærslu barns síns á heimili móðurinnar jafnvel þó móðirin komi í veg fyrir öll samskipti milli föður og barns.
Móðirin ber líka framfærsluskyldu til barns en fær ríflegan stuðning frá samfélaginu til þess að standa undir framfærsluskyldu sinni. Standi faðir hins vegar ekki undir framfærsluskyldu sinni má hann passlega búast við því að Innheimtustofnun sveitarfélaga geri hann gjaldþrota. Opinber stuðningur er ekki í boði fyrir hann.
Feður í þessari stöðu hafa fallið fyrir eigin hendi og það er samfélagslegt vandamál. Það getur líka verið samfélagslegt vandamál þegar aðrir karlar falla fyrir eigin hendi. Það er á ábyrgð samfélagsins að rannsaka þess hluti og gera allt sem hægt er til þess að bæta úr.
Það má til dæmis skoða hvort við þurfum ekki öll að alast meira upp hjá báðum kynjum.
Mörg börn búa bara hjá móður.
Á leikskóla eru nánast eingöngu konur með börnin.
Í grunnskóla eru nánast eingöngu konur með börnin.
Það er ekki fyrr en í framhaldsskóla sem börn fara að hitta karla.
Heimir Hilmarsson, 10.9.2013 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.