Fimmtudagur, 22. ágúst 2013
Evrukreppan er fyrst og fremst pólitísk
Fyrir nokkrum vikum reyndust einhverjar hagtölur á evrusvæðinu jákvæðari en búist var við og þá var óðara rætt um að kreppan þar væri liðin hjá. Svo er ekki enda evrukreppan ekki spurning um einstakar hagtölur heldur jafnvægi innan myntsvæðisins.
Þau 17 ríki sem mynda evrusvæðið hafa ekki enn gert upp við sig hvernig framtíðarlausn eigi að líta út. Nokkrar leiðir hafa þó verið útilokaðar, t.d. að vísa Grikkjum út úr evrusamstarfinu. Það myndi þýða útvísun annarra ríkja s.s. Portúgals og e.t.v. Spánar. Þá er búið að útiloka Stór-Evrópu þar sem Evrópusambandið yrði ígildi yfir-ríkisstjórnar með víðtækar heimildir til að ákveða fjármál aðildarríkjanna.
Kai A. Konrad, aðalráðgjafi þýska fjármálaráðherrans, sagði í nýlegu viðtali að Þjóðverjar gætu ekki bjargað evrusamstarfinu. Besta lausnin, að hans áliti, væri að Þjóðverjar yfirgæfu evrusamstarfið og tækju upp eigin mynt - e.t.v. í samstarfi við eina eða tvær aðrar Norður-Evrópuþjóðir, sem gætu verið Holland og Austurríki.
Það mun taka tíma að finna lausn á evrukreppunni. Aðeins einu er hægt að slá föstu. Og það er að evrusvæðið, og þarf með Evrópusambandið, mun taka stakkaskiptum þegar lausnin finnst.
Vill að lengt verði í lánum Grikkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.