Laugardagur, 10. ágúst 2013
Höfundur Trabantsins látinn
Trabant var verkfræðilegt afrek og einn mest seldi bíll allra tíma. Maður þurfti að bíða alla upp í 18 ár eftir eintaki, ef maður var íbúi Austur-Evrópu. Vegna vinsælda Trabantsins var hann framleiddur óbreyttur frá 1967 til 1991 þegar þýsku ríkin sameinuðust.
Trabantinn var framleiddur í Austur-Þýskalandi eftir seinna stríð. Sovétmenn tóku heilu verksmiðjurnar í Þýskalandi í stríðsskaðabætur. En sumu höfðu þeir ekki áhuga á, t.d. bómull og brúnkolum. Úr þessu hráefni gerðu austur-þýskir bílasmiðir, sem störfuðu fyrir Audi fyrir stríð, boddíið af Trabant. Þessi harðplastskel þótti í árekstraprófum standast samjöfnuð við bíla gerða úr járni og stáli.
Vélin í Trabant var tvígengisvél, upphaflega hönnuð í mótorhjól. Hún reykti olíublönduðu bensíni sem blandað var í tank í vélarrúminu.
Eftir fall Berlínarmúrsins og lok framleiðslu Trabant varð bíllinn að tákni um einfaldan en öruggan lífstíl Austur-Þjóðverja þar sem allt var í föstum skorðum og Stasi tryggði að ekkert færi úrskeiðis.
Werner Lang, yfirverkfræðingur og aðalhönnuður Trabantsins, lést nýlega í hárri elli.
Athugasemdir
Þetta er ekkert ný frétt. Lang hefur verið dauður lengi og líklega er farið að slá í hann: Lestu ekki Fornleif : http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1303343/ ?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.8.2013 kl. 11:05
Það hafa nokkrir sagt við mig að ESB er eins og Trabant þar sem enginn má fara framúr þjóðverjum.
Ég veit nú ekkert um það en hins vegar eyðir þessi bíll miklu bensínu og það var enginn sparnaður að kaupa hann. Heyrði sögu um að verið var að keyra framhjá Hagkaup í Skeifunni í miklu frosti, þegar sá sem keyrði Trabantinn fékk bíll aftan á sig. Trabantinn klofnaði í tvennt.
Ómar Gíslason, 10.8.2013 kl. 11:26
Það var reyndar í þrennt, eitt afritið var sent til Stasí. Ég sá einnig mann sem ók þessu og breyttist úr komma í öfgakapítalista á einum degi á leið til Hveragerðis.
Kona út við sjó vestur í bæ, sem hélt framhjá karlinum sínum, var mjög ánægð með að maður hennar ók Trabant. Það var alltaf nægur tími fyrir elskhugann að koma sér út, þegar þau heyrðu Trabantinn koma niður Hofsvallagötuna.
FORNLEIFUR, 10.8.2013 kl. 11:58
Góður þessi Fornleifur
Ómar Gíslason, 10.8.2013 kl. 13:33
Sá sem telur Trabantinn „verkfræðilegt afrek“ ætti helst að skrifa um eitthvað annað en bíla.
Vilhjálmur Eyþórsson, 10.8.2013 kl. 14:30
Fornleifur, ég les pistlana þína reglulega en þessi um Trabantinn fór framhjá mér.
Ómar, þeir eru margir góðir brandararnir um Trabant og margir sannir.
Vilhjálmur, verkfræðilega afrekið verður að njóta sannmælis; Sovétmenn léku Austur-Þjóðverja grátt og hirtu af þeim heilu verksmiðjurnar.
Páll Vilhjálmsson, 10.8.2013 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.