Fimmtudagur, 8. ágúst 2013
Meinhof og Arendt
Borgarskæruliðarnir kenndir við Baader Meinhof herjuðu á þýska frammámenn á áttunda áratug síðustu aldar í nafni sósíalískrar byltingar. Í kvikmyndinni Baader Meinhof Complex frá 2008, byggðri á samnefndri bók Stefan Aust, er saga þýsku hryðjuverkaungmennanna sögð.
Elskendurnir Gudrun Ensslin og Andreas Baader eru leiðtogar hópsins, sem þau kölluðu Rauðu herdeildirnar. Guðrún er sýnd sem yfirveguð en öfgafull og kaldrifjuð en Andreas sem hvatvís töffari. Ulrike Meinhof er eldri og bjó að menntaþroska. Hún kemur til liðs við hópinn úr brotnu hjónabandi og var þekktur blaðamaður í þýskum vinstrikreðsum.
Í kvikmyndinni er Meinhof sýnd í því hlutverki að réttlæta glæpaverk Ensslin og Baader. Meinhof skrifar texta hlaðinn heimspeki sem útskýrir hvers vegna það sé rétt að skjóta á færi einstaklinga í valdastöðum. Úlrika er flink með orðin sín en uppsker háðsglósur frá Guðrúnu sem leggur fæð á menntakonuna. Úlrika reynir aftur til að þóknast, vera með og sleppa við útskúfun úr litla hópnum.
Önnur greind þýsk kona, heimspekingurinn Hannah Arendt, skrifaði ítarlega um vald með nasisma Hitlers í forgrunni. Í sjónvarpsviðtali árið 1964, þ.e. nokkrum árum áður en Meinhof og félagar taka til vopna, ræðir Arendt um menntamenn sem réttlættu nasisma. Í viðtalinu, birt í ritgerðasafninu Essays in Understanding, fjallar Arendt um meðvirkni menntamanna með valdinu. Þýskir menntamenn, margir hverjir, gengu nasisma á hönd til að vera ekki úti í kuldanum.
Þegar Ulrike Meinhof var einu sinni komin inn í hóp hryðjuverkaunglinganna var ekki aftur snúið. Hugsun hennar var komin á járnbrautateina og leyfði ekki gagnrýni á markmið hópsins. Hryðjuverkin urðu ofbeldisfyllri og Meinhof var nauðbeygð að skrifa réttlætingartexta. Hún átti engra kosta völ þar sem leiðin úr hryðjuverkaklíkunni lá beint inn í fangelsi.
Joachim Fest, blaðamaður og sagnfræðingur, sagði um Meinhof í ritgerðasafninu Hittingur, um vini nær og fjær, að það sem vantaði í stöðumat hennar væri veruleikinn. Fest er af sömu kynslóð og Arendt og skrifaði um Hitlerstímann. Um pólitík róttæklinganna í Rauðu herdeildunum sagði hann að í henni væri áþekk menningarsvartsýni og í nasismanum en kæmi nú frá vinstri.
Meinhof hengdi sig í fangelsi 1976. Rúmu ári síðar fór á sama veg fyrir Ensslin og Baader.
Lærdómurinn er að það borgar sig að vanda valið á félagsskap; betri er enginn en vondur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.