Mánudagur, 15. júlí 2013
Nýfjölmiðlun, frásögnin og peningaleysi
Nýfjölmiðlun s.s. fréttasíður á netinu og blogg eru að ganga af hefðbundnum fjölmiðlum, einkum dagblöðum, dauðum. Þetta var um það bil boðskapurinn í upplýsandi heimildamynd um New York Times sem RÚV sýndi í kvöld.
Lykilsetning ræmunnar var þessi: Daniel Ellsberg þurfti á New York Times að halda en Julian Assange ekki. Ellsberg fletti ofan af Víetnam-stíðinu í byrjun áttunda áratugsins, og fékk til þess aðstoð New York Times, en Assange notaði YouTube til að koma á framfæri gagnrýni á hernað Bandaríkjamanna í Írak og víðar.
Þar fyrir utan snýst nýmiðlun um það sama og prentfjölmiðlun, að koma frásögninni á framfæri. Stundum er frásögnin ítarleg. David Carr, blaðamaður NYT setti saman 5000-orða frásögn um hrun fjölmiðlaveldis þar vestra, eins og ræman sýndi. En frásögnin getur verið eitt orð. Einhvern næstu daga kemst stórfrétt heimsbyggðarinnar fyrir í orðinu ,,strákur" eða ,,stelpa" - þegar ríkisarfi Bretlands fæðist.
Prentblaðamenn segja enga vilja borga fyrir frásagnir nýfjölmiðla. Og það er rétt hjá þeim. En það er ekki vandamál. Það er alltaf eftirspurn eftir frásögninni. Þökk sé tækninni getur hver sem birt sína frásögn af heiminum.
Athugasemdir
Já Páll, maður veltir fyrir sér framtíð blaðanna hjá okkur. Ég verð hinsvegar að fá línuna með morgunkaffinu og lesa það við borðið áður en ég kveiki upp á tölvunni. Ég veit auðvitað að þetta er óþarfi og vitleysa en vaninn er ríkur.
Halldór Jónsson, 16.7.2013 kl. 08:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.